5. ágúst 2013

Torfi og tæknin hans - á Ólafsdalshátíð

 Nú nálgast hin árlega hátíð í Ólafsdal. Verður hún haldin nk. sunnudag 11. ágúst, sjá m.a. www.olafsdalur.is  Þar verður ýmislegt til fræðslu og skemmtunar að venju.

 

Í gildi er samstarfssamningur á milli Landbúnaðarsafns Íslands og Ólafsdalsfélagsins. Landbúnaðarsafn hefur lagt eflingu Ólafsdals lið með ýmsum hætti. Safnið vinnur nú m.a. að skráningu jarðræktarminja þar undir stjórn Ragnhildar Helgu Jónsdóttur land- og umhverfisfræðings.

 

Að þessu sinni mun Bjarni Guðmundsson,  forstöðumaður Landbúnaðarsafns, segja sögur undir heitinu Torfi, verkfærin og vinnuhestarnir. Söguerindið hefst kl. 16 og verður flutt á Langaloftinu á annarri hæð Gamla skólahússins, þar sem áður var svefnstaður lærisveinanna í Ólafsdal.

 

Sagðar verða sögur um upphaf jarðyrkjustarfa Torfa Bjarnasonar bónda, smiðs og skólastjóra. Þá verður sagt frá verkfærasmíði Torfa og rýnt í umfang hennar, þróun og áhrif. Fjallað verður um sérstöðu og framlag Ólafsdalsskólans hvað verkfærasmíðina snerti.

 

Loks verður vikið að vinnuhestunum í Ólafsdal og notkun þeirra. Vinnuhestarnir þar voru óvenju margir, svo sem ekki ætti að undra neinn. En það sem meira var: Þeir virðast hafa verið mun hærra metnir en vinnuhestar á öðrum bæjum.

 

Vinnuhestarnir í Ólafsdal og verkfærin, sem þeim var beitt fyrir, mörkuðu hvað helst upphaf tíma vinnuhestanna við jarðrækt og heyskap hérlendis – að ekki sé nú gleymt hestakerrunum til flutninga, en á því sviði munaði líka um frumkvæði Torfa.

 

Að öllu þessu er einnig vikið í væntanlegri bók Bjarna, Frá hestum til hestafla, http://www.uppheimar.is/verslun/product.asp?ID=265  Erindið er að hluta byggt á efni úr bókinni og heimildavinnu við hana.