1. ágúst 2013

Fjölfætlan/heyþyrlan fimmtug - á Íslandi

 

Nú er tími útihátíða af ýmsum tilefnum.

 

Verðugt tilefni útihátíðar væri að minnast þess að fimmtíu sumur (og eiginlega einu betur) eru um þessar mundir liðin síðan heyþyrlan (kreiselheuer) hóf að breiðast út um íslenskar sveitir. Fylgdi komu hennar ein mesta bylting sem orðið hefur í meðferð heys á þurrkvelli hérlendis.

 

Það mun hafa verið Fahr (KH 4) sem fyrst var á ferð, í umboði Þórs hf, en fast á hæla fylgdi PZ sem þá var á vegum Glóbusar hf.

 

 

Snúningsvélin frá Fahr kom til prófunar á Hvanneyri sumarið 1963. Henni var fljótlega gefið heitið fjölfætla, sem var formlega skrásett.

 

Seljendur annarra snúningsvéla urðu því að finna önnur heiti. Spruttu þá fram heiti eins og heyþyrla, heytætla ofl. Heimsíðungi væri þökk í því að heyra hver datt ofan á nafnið fjölfætla – Ef til vill Einar Þorkelsson forstjóri Þórs hf sjálfur ?

 

Heyþyrlurnar, sem hér eru svo nefndar einu heiti, nutu strax mikilla vinsælda. Má raunar segja að þær hafi bætt svo meðferð heys við þurrkun á velli að síðan hafi þar ekki verið bætt úr.

 

Sigsteinn Pálsson bóndi á Blikastöðum í Mosfellssveit var meðal þeirra fyrstu sem reyndu Fahr-fjölfætluna, sjá meðf. mynd. Hann lýsti reynslu sinni þannig í samtali við Morgunblaðið 27. júní 963:

 

— Jú, ég tók eina slíka í notkun í gær. Hún er kölluð „Fjölfætla“. Þjóðverjarnir framleiða hana og hafa selt mikið af henni til Svíþjóðar, Englands og annarra landa í Evrópu. Þeir segja mér umboðsmennirnir hjá Þór h.f. í Hafnarstrætinu, að það sé þegar búið að panta mikið af þeim hérna og farið að nota hana hérna í nágrenninu og fyrir norðan.

 

— Ég held að þessi vél sé hreinasta þing. Hún tætir slægjuna mjög vel upp úr jörðinni, dreifir henni vel og flýtir mjög fyrir þurrkun. Svo rótar hún betur en nokkur önnur vél úr múgum, en aðrar vélar hafa ekki tætt nóg úr miðjum múgunum. „Fjölfætlan" er afkastamikið áhald og ég ef fulla ástæðu til að ætla að hún reynist mjög vel.

 

Sigsteinn reyndist sannspár og brátt var heyþyrlu að finna á flestum bæjum landsins. Tegundirnar urðu býsna margar: Fahr, PZ, Fella, Kuhn, Bautz, Heuma, Claas, JF og þá gleymi ég örugglega einhverjum.

 

Viðbrögð Stefáns ömmubróður sögðu mikið um notagildi Fahr-fjölfætlunnar sem keypt var þar á bæ sumarið 1964, að ég ætla:

 

Ömmubróðir, þá kominn hátt á áttræðisaldur, hafði jafnan verið vanur að rölta á eftir snúningsvélinni með hrífuna sína til þess að berja úr hnúskum og lyskrum, sem vélinni hafði yfirsést. Nú hélt hann uppteknum hætti þegar fjölfætlan fór í fyrsta flekkinn. Hann gekk hins vegar fljótlega út úr flekknum með þeim orðum að þar hefði hann ekkert að gera, svo vel ynni vélin.

 

Vissulega hafa heyþyrlurnar breyst síðan á sjöunda áratugnum, en ekki í neinum stóratriðum: Þær hafa stækkað og tengi- og burðarbúnaður þeirra er ögn annar en var.

 

Þótt dráttarvéla skaffi flestum þeirra aflið er það ekki án undantekninga sbr. lausnina sem sjá má á meðfylgjandi myndbandsbút:

 

http://www.youtube.com/watch?v=Oc0ptFOtEZc