10. júlí 2013

Leitað ljósmynda af orfslætti

Nú eru heyannir. Vegna bókverks um slátt sem heimsíðungur hefur unnið að um nokkurt skeið leitar hann nú eldri eða yngri ljósmynda sem sýna karlmenn og kvenmenn að slætti, þ.e. eru að slá með orfi og ljá, brýnsla meðtalin!

 

Myndir segja oft meira en margorð lýsing. Á þeim má líka greina ýmis smáatriði, sem máli skipta, svo sem gerð áhalda og beitingu þeirra, líkamsstöðu, fatnað og ýmislegt fleira.

 

Heimsíðungur hefur þegar komist yfir allmargar ljósmyndir af slætti. Þær sýna býsna mikinn breytileika, ekki síst í því hvernig menn báru sig að þegar þeir brýndu ljáinn, eða lögðu hann á hverfistein.

 

Tilgangur þessarar myndaeftirlýsingar er ekki síst að auðvelda greiningu og lýsingu breytileikans, og svo auðvitað að fá góðar myndir til birtingar í væntanlegri sláttubók sem hefur vinnuheitið Bítur ljár í skára - Íslensk sláttusaga.

 

Ég bið ykkur helst ekki senda mér frummyndir á þessu stigi máls; góð eftirgerð (skönnun) dugir mér öldungis . . .  ég hef netfangið bjarnig@lbhi.is

 

Með góðum þökkum fyrir greiðann -

 

Vinsamlegast látið erindið berast til annarra líklegra heimildarmanna ef þið getið . . .

 

Njótið svo sumars, grasailms og heylyktar.