21. júní 2013

Safninu bætast súgþurrkunar-forngripir

Hér á síðunni hefur það áður verið hermt að súgþurrkun einkenndi heyverkun hérlendis á seinni hluta síðustu aldar - svo mjög að Íslendingar áttu örugglega heimsmet í þeirri iðju.

 

Því þótti okkur við hæfi að leggja drög að varðveislu minja og sögu um súgþurrkun. Gerist það með ýmsum hætti.

 

Á dögunum lauk Jóhannes vélameistari Ellertsson við að pússa upp súgþurrkunarviftu og mótor frá miðri siðustu öld. Búnaðinn má sjá á meðfylgjandi mynd.

 

Viftan er þeirrar gerðar sem notuð var á fyrstu árum súgþurrkunartækninnar 1946-1950. Viftan er komin frá Grund í Kolbeinsstaðahreppi, mjög vel varðveitt og heil að öllu leyti. Því var nóg að baða hana Jóhannesarolíu til forvörslu. 

 

Aflvélin (mótorinn) er frá Malarrifi, Armstrong Siddely, 10 hö. Aflvél þeirrar gerðar fylgdi raunar viftunni frá Grund, en fyrir velvilja góðkunningja safnsins bjargaðist mótor frá Malarrifi, sem var í enn betra standi en Grundarmótorinn. Var Malarrifsmótorinn því pússaður upp - var enda gangfær þegar hann kom í safnið sl. vor.

 

Með þessum græjum er hægt að blása heilmiklu af lofti við hóflegan mótþrýsting - og mikinn hvin. Við munum þó hafa hægt um okkur í þeim efnum.

 

Má nú í safninu sjá dæmi um fyrstu tækin sem til súgþurrkunar voru notuð: Aðferðin stytti þurrkunartíma heys á velli til muna og þar með minnkaði vinnuþörfin. Heyin urðu líka betri en áður.

 

Gripir þessir eru ágæt viðbót við súgþurrkunarlíkanið sem áður hefur verið sagt frá hér á síðunni - og er m.a. dæmi um frumkvöðulsstarf Ágústs Jónssonar rafvirkjameistara er hvað mest vann að mótun tækninnar á fyrstu árum hennar.

 

Þá er þessa dagana unnið að skráningu gagna frá Búnaðarfélagi Íslands um hönnun og byggingu súgþurrkunarkerfa á síðustu öld.

 

Loks hafa þingeyskir heimildarmenn (og raunar fleiri) gefið sig fram með merkilegan fróðleik um þessa heyverkunaraðferð, svo við erum í meðvindi hvað snertir söfnun og varðveislu minja um súgþurrkun.

 

En alltaf þiggjum við meira  !!!