13. júní 2013

Elsta Íslandsýtan, frá 1919? Hver tók tönnina af henni?

Í safnið er komið merkilegt tæki; líklega elsta jarð(efna)ýta á Íslandi og sú eina sinnar gerðar sem flutt var til landsins. Var smíðuð hjá Aveling í Bradford á Englandi – Barford Calfdozer (Sbr. Bull-dozer).

 

Óvíst er um smíðaárið; jafnvel gæti hún verið frá fyrsta fjórðungi síðustu aldar. Árgerðin 1919 hefur verið nefnd með góðum rökum.

 

Það var Karl Sigurðsson þá starfsmaður Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi, sem hlutaðist til um björgun gripsins, ásamt Grétari J. Unnsteinssyni þá skólastjóra þar.   Garðyrkjuskólinn keypti Aveling-ýtikálfinn árið 1999 í varðveisluskyni.

 

 

Þetta var næsta sérstæð vinnuvél eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Ekillinn hafði fætur sínar á ýtitönninni og hélt henni niðri um leið. Vélin var því raunar stórhættuleg í notkun.

 

Ýtitönnina vantar hér á „ýtikálfinn“, sem svo má kalla; hún er sögð vera e-s staðar „í láni“. Uppgerð aflvél kálfsins er hins vegar í geymslu safnsins; eins strokks bensínvél. Hana gerði Karl Sigurðsson upp, en Jóhannes Ellertsson flikkaði upp á útlit ýtikálfsins, sem nú gljáir í JPC-liquid (Jóhannesarolíu)  á hlaði Landbúnaðarsafnsins, gestum þess til fróðleiks og yndisauka.

 

Ýtikálfurinn var mest notaður við uppskipun kola í Reykjavík; hífður um borð í kolaskip með Hegranum, kolakrananum fræga við Reykjavíkurhöfn. Ýtikálfurinn var m.a. notaður til þess að ýta snjó af Reykjavíkurtjörn veturinn 1952. Þá átti verktakinn Pétur Snæland gripinn.

 

Tönnina vantar eins og áður segir, henni mun hafa verið stolið á sínum tíma, segja heimildarmenn okkar.

 

Við biðjum því þá sem hugsanlega kannast við ýtitönn eins og myndin sýnir, eða hafa grunsemdir um hvar hún er nú niður komin að láta okkur vita. Sé hún „í láni“ hjá einhverjum biðjum við þann að skila henni þegar í stað að Hvanneyri (eða Reykjum í Ölfusi), að nóttu eða degi, og málið mun ekki hafa frekari eftirmála að okkar hálfu . . .