12. júní 2013

Historían um Hankmó - Hundrað ára afmæli

Í ár á það fræga Hankmó-herfi orðið hundrað ára sögu á Íslandi. Árið 1913 kom það til landsins. Halldór Vilhjálmsson skólastjóri á Hvanneyri var með þeim fyrstu er það reyndi. Hann hreifst mjög af vinnubrögðum þess.

 

Hankmó-herfið tók við af veltiherfunum gömlu: Þrír skekkjanlegir ásar með spöðum/hnífum sem skáru og muldu plógstrengina þeim mun betur sem hraðar var farið.

 

Svo snjöll var hönnun herfisins að þegar átti að flytja það á milli staða var því bara hvolft og það dregið á tveimur sleðameiðum. Þá spilltist ekki bit hnífanna.

 

Fljótlega bættu hönnuðirnir palli á herfið, sem setja mátti þyngingu á til þess að auka vinnslumættið. Stundum steig ekillinn bara upp á pallinn og notaði eiginþyngd sína sem "farg". Tvo hesta minnst þurfti til dráttarins.

 

Enn í dag njóta Hankmo-herfi vinsælda. Þau eru að sönnu miklu stærri en áður, enda nóg afl dráttarvéla til reiðu.

 

Vinnslumáta Hankmó-herfis má mjög líkja saman við vinnu með páli eða stunguskóflu - og hann virðir vel kröfur vistþekkrar jarðvinnslu.

 

Hankmo-herfið er komið frá Finnlandi; heitir raunar eftir heimasveit sinni. Það var fyrst kynnt opinberlega árið 1910. Hönnuður þess var Johannes Sand bóndi í Hankmo-byggð. Hann fékk einkaleyfi á smíðinni.

 

Nánar má lesa um merka sögu Hankmó-herfisins á síðunni  http://www.hankmo.net/document.asp?id=y57pv8v8y6m

 

Í Landbúnaðarsafni er afar gott eintak af Hankmo-herfi frá fyrri hluta síðustu aldar. Það er komið vestan úr Ögursveit við Djúp. Í flestum aðalatriðum er það eins og hins finnska frumgerð.

  

Við óskum Hankmó-herfinu til hamingju með aldarafmælið á Íslandi.