7. júní 2013

Sáðvél - Íslensk?

Við könnun Landbúnaðarsafnsins á eldri gripum að Reykjum í Ölfusi nýlega bar fyrir sáðvél, ein-eða fákorna, sem ber ýmis merki þess að vera íslensk smíði.

 

Sáðvélin er handknúin, með tveimur sköftum. Frá hjóli sem er á enda eins konar valta er þjappar sáðröðina, liggur gatabelti sem knýr sáðvalsinn og skammtar fræið.

 

Þetta er svo sem ekki óþekkt hugmynd við smíði sáðvéla.

 

Útfærslan er einföld og að sjá sem módelsmíði.

 

Ekki höfum við grafist að ráði fyrir um sögu þessa tækis, eflaust þekkir hana einhver.

 

Eins og vakin hefur verið athygli á fyrr hér á síðunni, er innlend búverkfærahönnun og -smíði mjög áhugavert viðfangsefni.

 

Slík smíði er ekki ómerkari hluti verkmenningarsögu landsmanna en hin sem fyrst og fremst snerist um innflutt verkfæri og vélar, langoftast raðsmíðaðar í miklum fjölda.

 

Notuðm við því tækifærið að kalla enn og aftur eftir ábendingum og/eða heimildum um innlenda hönnun/aðlögun verkfæra til hvers kyns búnaðarstarfa.

 

Við höfum rökstuddan grun um að af nógu sé að taka . . .