9. maí 2013

Unimog - landbúnaðarbifreið

Í Morgunblaðinu sl. þriðjudag var fjallað um bíla.  Þar var vikið að ökutæki sem tilheyrði merkum flokki vinnuvéla er tilraunir voru gerðar með um miðja síðustu öld.

 

Þá hafði komið í ljós að bandaríski jeppinn hentaði einnig til friðsamlegri nota, m.a. landbúnaðar, enda var farið að smíða Willys-jeppa beinlínis til þess (CA-gerðin) þegar hernaðarlegi markaður skrapp saman.

 

Fleiri smiðjur runnu sömu slóð. Land Rover hannaði landbúnaðarbifreið, Fransmenn reyndu einnig smíði slíkra hjálpartækja

(Peugeot),  og til Íslands kom Bavaria Allrad jeppa/dráttarvélin...

 

Raunar lá á bak við hugmyndirnar vinnuvél sem unnið gæti hin léttari bústörf , svo sem jarðyrkju, slátt ofl. en væri um leið hentugri til flutninga og samgangna en hinar hefðbundnu dráttarvélar sem þá höfðu mótast.

 

Það var á þessum grunni sem til varð gripurinn UNIMOG. Heitið er myndað úr orðunum þýsku orðunum "UNIversal-MOtor-Gerät"  

 

UNIMOG barst til Íslands í gegnum Ræsi, sem var umboðsaðili Mercedes Benz á Íslandi, en þar í smiðjum var gripurinn smíðaður.

 

Með fylgjandi mynd er úr Mbl.greininni áðurnefndu, en þar er nánar sagt frá tilraunum til kynningar og útbreiðslu UNIMOG hérlendis.

 

Athyglisvert við þessa mynd er að UNIMOG er þarna með sláttuvél, eins og áðurnefndir félagar hans. Vera má að sláttuvélin hafi verið frá BUSATIS, það veit heimsíðungur ekki, en þaðan voru jeppasláttuvélarnar sem til landsins bárust í einhverjum tugum og voru flestar settar undir Willys ...

 

Ekki náði UNIMOG mikilli útbreiðslu hérlendis; nokkrir komu þó og um þá hafa spunnist sögur og frásagnir. UNIMOG var um margt afar athyglisvert landbúnaðartæki sem hefði átt að tryggja honum nokkrar vinsældir...

 

Í undirbúningi er að einn UNIMOG, afar fagurlega upp gerður, verði sýndur í Landbúnaðarsafninu í sumar. Við segjum frá því er þar að kemur.