22. mars 2013

Sögur af súgþurrkun

Fyrir nokkrum vikum birtum við pistil í Bændablaðinu þar sem leitað var eftir fróðleik hjá lesendum tengdum súgþurrkun á fyrstu árum þeirrar tækni hérlendis. Við höfum afar góða reynslu af þeim miðli, sem virðist reka fyrir augu mjög margra bæði í sveit og borg.

 

Nokkur  viðbrögð höfum við fengið en væntum meira. Vissulega er farið að fenna yfir spor frá þessum tíma.

 

Frumbýlingsár súgþurrkunartækninnar voru 1945-1950, og margt

hefur gerst á nær sjötíu árum.

 

 

En viðbrögð höfum við fengið:

 

Á dögunum barst okkur súgþurrkunarmótor vestan af Snæfellsnesi þeirrar gerðar sem algeng var á fyrstu árum súgþurrkunar. Frá honum sögðum við stuttlega á face-book síðu safnsins á dögunum.

 

Nú er Jóhannes vélameistari að pússa mótorinn ögn til. Safnið var svo heppið að fá viftu, einnig snæfellska, fyrir nokkrum árum, viftu ens og þær sem menn notuðu á fyrstu árum súgþurrkunarinnar.

 

Ábendingar bárust um tvær fornar blásaragerðir, m.a. tvöfaldan amerískan blásara. Útbreiðslusögur hafa borist og ábendingar um frumkvöðla í nokkrum sveitum.

 

En svo fréttist af félagi þingeyskra bænda sem hét Súgur, og hafði það hlutverk að liðsinna bændum með súgþurrkunartæki. Nú er foringi félagsins til margra ára að taka saman söguna um þetta félag, sem verður mikill fengur. Líklega er þetta eins „súgþurrkunarfélagið“ sem starfað hefur hérlendis – eða veit einhver um fleiri slík?

 

Við þiggjum enn fleiri ábendingar um hvað eina sem varðar fyrstu ár súgþurrkunar hérlendis, - tækni sem breytti heyskap í mörgum sveitum til mikilla muna: sparaði vinnuafl og bætti gæði heysins.

 

Líka var hún tækni, sem Íslendingar áttu heimsmet í, að því er best verður séð! Er það miðað við útbreiðsluna.