16. desember 2012

Skorradalsviður í umbúnaði safnsins

Nú er verið að búa út rými fyrir nýja sýningu Landbúnaðarsafns í Halldórsfjósi hér á Hvanneyri. Með samkomulagi við Skógrækt ríkisins er timbur til verksins fengið úr skógum Skorradals.

 

Á dögunum sóttu starfsmenn PJ-bygginga á Hvanneyri stóran timburfarm fram í Skorradal, en þar hafa starfsmenn Skógræktarinnar fellt og grófunnið timbrið og frumþurrkað það. Um er að ræða fagurlega vaxið greni.

 

Timbrið verður nú þurrkað og stillt að rakastigi sýningarsalarins. Síðan verður það notað í gólfhluta, sýningarpalla og gangbrautir sýningarinnar og í annað sem til fellur.

 

Myndin sem hér fylgir sýnir hluta viðarstaflanna kominn í skorður til frekari þurrkunar í sýningarsalnum; Kristján smiður Andrésson stendur við staflann.

 

Okkur þykir ákaflega vænt um að geta notað timbur úr næsta hreppi í sýningu sem sýna á brot af íslenskri verkháttasögu.

 

Sennilega er meira en öld liðin síðan síðast var sóttur viður í Skorradal til húsagerðar í Andakíl ???

 

Raunar var það nú svo að fyrr á tíð notuðu landsmenn eigin skógvið til margvíslegra þarfa svo sem alþekkt er: til kolagerðar, sem bygginga- og raftvið og að ekki sé nú gleymt öllum þeim áhöldum og áhaldahlutum sem búnir voru til úr íslenska birkinu.

 

Skorrdælska grenið í sýningarumbúnaði safnsins má því vel verða til þess að minna á þá aldalöngu sögu.