28. nóvember 2012

Endurnýting, sparnaður gjaldeyris og uppgerðarfræði

Þessa dagana er mjög talað um það að þjóðin þurfi að afla meiri gjaldeyris og/eða eyða minna eigi ekki að illa að fara í nálægri framtíð. Þeir eru til sem láta gjaldeyrishömlur fara í taugarnar á sér. Líka þeir sem kunna við þeim ýmis ráð.  Hér er dæmi um eitt slíkt.

 

Í afar vel lukkaðri fundarferð fulltrúa Landbúnaðarsafns og Ferguson-félagsins um Hérað fyrir mánuði síðan var gerður stans hjá Guðmundi bónda á Vaði í Skriðdal.

 

Guðmundur á afar gott safn gamalla véla og verkfæra. Raunar eitt það merkasta sem heimsíðungur þekkir til í einkaeigu hérlendis.

 

 

 

Guðmundur býr á því plássi fósturjarðarinnar þar sem NaCl – hvunndags nefnt salt – hvolfist ekki af himnum ofan flestar vikur ársins málmum til tæringar og áhöldum úr þeim til skemmda á skömmum tíma.

 

Meðal gripa í safni Guðmundar er dráttarvél af gerðinni IHC 10-20. Gripurinn er einn af þessum sögumerku vélajálkum sem nú eru komnir hátt á áttræðisaldur. Dráttarvélin lítur býsna vel út (sjá mynd - bendlaðu hér!) þótt hafi á sinni tíð verið notuð ótæpilega til erfiðra ræktunarverka.

 

Á einhverju aldursstigi hafa bretti dráttarvélarinnar gefið sig svo endurnýja þurfti.

 

Þá var ekki rokið til og pöntuð ný bretti frá Sambandinu (Véladeild SÍS). Nei, fjarri því. Af þegnlegri ábyrgð voru útgjöld gjaldeyris spöruð en þeim mun meiri vinna lögð í lagfæringarnar:

 

Útvegað var notað eldsneytisfat (lesist bensíntunna). Botn og lok slegin úr fatinu og það rist upp, og síðan skipt í sinn hvorn helminginn. Með því að slá fatið út fengust aldeilis passandi hjólskálar yfir afturhjólin, sem haganlega voru hnoðaðar við brettahliðarnar.

 

Og það sem meira var: Laggir fatsins urðu hinir ágætustu kantar á brettin til styrks og hlífðar. Líka það að efni fatsins/tunnunnar var svo vandað með galvanhúð sinni að það hefur enst öllu betur en aðrir málmhlutar dráttarvélarinnar.

 

Kemur þá að lokahugleiðingunni.

 

Einn daginn mun þessi dráttarvél að öllum líkindum verða gerð upp. Vonandi dettur uppgerendum þá ekki í hug að fleygja brettunum og smíða ný eins og þau voru “orginal”.

 

Fats- eða tunnubrettin eru nefnilega órjúfanlegur hluti af sögu þessarar dráttarvélar – og lýsa hugsun, viðhorfum og gerðum manna á þeim tímum. Þau gera þessa vél sérstæða. Annars væri hún bara rétt eins og allar þær tugþúsundir IHC 10-20 dráttarvéla sem runnu af færibandinu í Chicago.