31. október 2012

Vel sóttar kvöldvökur Landbúnaðarsafns og Fergusona

Á liðnum vetri handsöluðu Fergusonfélagið og Landbúnaðarsafn samkomulag um fræðslu- og skemmtifundi um fornvélar. Var það gert í framhaldi af nokkrum bráðvelheppnuðum fundum þessara aðila: í Mosfellsbæ, á Akureyri og í Skagafirði, að ógleymdri  sjálfri guðsborgsíon: í Reykjavík.

 

Og á milli sláturtíðar og hrútatöku á þessu hausti var látið skríða til skarar um framkvæmd samkomulagsins:

 

Fundir voru haldnir sem hér segir:

 

1. Í Hótel Héraði á Egilsstöðum miðv.d. 24. október. (þar tók Sigurður Skarphéðinsson meðf. mynd af fundarmönnum)

 

2. Í félagsheimilinu að Flúðum mánudaginn 29. október

 

3. Í Sögusetrinu á Hvolsvelli þriðjudaginn 30. október.

 

Allir hófust fundirnir kl. 20.30 og stóðu fram undir kl. 23.

 

Alls mættu á fundina nær 130 manns, flestir á Egilsstaðafundinn; tæpl. 60 manns.

 

Dagskrá fundanna var alls staðar hina sama:

 

Fulltrúar Fergusonfélagsins kynntu starfsemi þess; Sigurður Skarphéðinsson formaður félagsins mætti á alla fundina, en einnig komu þeir á fundi stjórnarmenn Þór Marteinsson og Jón Ingimundur Jónsson, sem og síðustjórinn Ragnar Jónasson.

 

Bjarni Guðmundsson hafði skyggnulýsingu og sagði sögur af þróun dráttarvélanna í tímanna rás - og sumu af því sem réði henni.

 

Töluvert spjall varð á öllum fundunum enda jafningjafræðsla yfirlýst markmið fundarboðenda - að hinu ógleymdu að maður er manns gaman.

 

Fergusonfélagið bauð kaffi og kleinur, og menn fengu sér í nefið eins og gengur, keyptu bækurnar um Farmal og Ferguson, skráðu sig í Ferguson-félagið  ofl.

 

Framtakið lukkaðist með ágætum.

 

Heimsíðungur fræddist um margt af fundarmönnum - m.a. um efni sem eiga eftir að koma Landbúnaðarsafni vel (ljósmyndir, ábendingar, heimildarmenn...), sem og yfirstandandi skrifum hans um bútæknisögu.

 

Í tengslum við Egilsstaðafundinn heimsóttu Sigurður og Bjarni fornvélaáhugamenn á Héraði undir leiðsögn Óskars Alfreðssonar á Geirólfsstöðum.

 

Öllum, sem við sögu þessa framtaks komu er þakkað kærlega fyrir samskiptin. Þau styrktu bæði Landbúnaðarsafn og Ferguson-félagið.