10. október 2012

Ferguson-minningar Þórs Jakobssonar veðurfræðings

Það hefur alllengi lent í útideyfu að nefna Ferguson hér á síðunni. Nú verður ekki lengur svo við búið enda af mörgu að taka.

 

Að þessu sinni ætlar heimsíðungur að vekja athygli á bráðskemmtilegum minningakafla sem Þór Jakobsson, veðurfræðingurinn góðkunni, sendi. Þær eru birtar í B-hluta vefritsins Plógs, sem finna má hér til vinstri á síðunni, til flýtis einnig hér http://www.landbunadarsafn.is/Files/Skra_0058116.pdf

 

 

Það var dag einn á liðnu vori sem Þór og þau hjónin litu við í Landbúnaðarsafni. Kom þá í ljós að Þór hafði tekið þátt í þjónustu við Ferguson-eigendur þegar á fyrstu dögum þeirrar gráu dráttarvélar hérlendis.

 

Þótti heimsíðungi heldur fengur að frásögn Þórs, sem þekkti Ferguson fullt eins vel í pörtum eins og heilan, sakir þess að varahlutalistann kunni hann enn langt til utan að...

 

Fleira blandast inn í hina ágætu frásögn Þórs. Gerð og stíll frásagnarinnar sýnir að Þór kann fleira fyrir sér en veður- og hafísafræði, enda úr fjölskyldu mikilla ritsnillinga.

 

Heimsíðungur ætlar ekki að tuða meira um frásögn Þórs en lesendur eru hvattir til þess að kíkja á hana og njóta ... Hún sýnir enn og líka að tilveran er ekki bara traktor ... í hinum daglega skilningi þess orðs...