6. september 2012

Af sögugripa-hótelrekstri Landbúnaðarsafns

Eitt af hlutverkum safns er að segja sögur. Það má gera með ýmsum hætti. Meðal annars þeim að safnið gegni hlutverki sögugripa-hótels  þar sem hótelgestir vinna fyrir dvöl sinni með því að segja sögur...

Landbúnaðarsafn hefur um nokkurt skeið fetað sig áfram eftir þeirri götu, varlega þó og í litlum mæli, svo sem eðilegt er.

 

Um nokkurt skeið hafa gist safnið tveir hótelgestir í þessum flokki - tvær ágætar dráttarvélar - og á dögunum bættist sú þriðja við. Við segjum frá henni seinna.

 

 

 

Fyrir nokkrum dögum kom svo gagnmerkur Willys-jeppi í safnið til hótel-dvalar sem sögugripur.  Jeppinn kom nýr að Hofi í Dýrafirði. Árgerð 1946 er hann, og hefur verið gerður í sitt upphaflega form að öllu leiti, af miklum hagleik.

 

Við segjum sögu jeppans innan tíðar en það er Kristján Davíðsson sem gripinn á, dóttursonur fyrsta eigandans, Gunnars Guðmundssonar bónda á Hofi.

 

Kristján kom akandi á jeppanum að vestan, hafði sá gamli þá lagt um það bil 450 km undir hjól sín, og ekki slegið feilpúst alla leiðina.

 

Myndin var tekin er Kristján kom í hlað á Hvanneyri.

 

Í undirbúningi er hóteldvöl jeppans í Landbúnaðarsafni "þangað til annað verður ákveðið".

 

Hið sögulega verðmæti jeppans Í-19 liggur í því að hér er á ferð landbúnaðarjeppinn frá Willys, og því hlutverki gegndi hann einmitt á Hofi í Dýrafirði um árabil, og einmitt á mikilvægustu jeppaárunum - um miðja síðustu öld.

 

Við hlökkum til að sýna jeppann gestum safnsins.