28. júlí 2012

Saga um grindarljá - rakstrarkonu

Sigurjón heitir maður ágætur, og býr á Glitsstöðum í Norðurárdal, svo ég hafi nú dálítinn Njálustíl á upphafi kaflans. Það passar raunar sérlega vel því þessi kafli gerist hið næsta Njáluslóð, en þaðan er Sigurjón einmitt ættaður.

 

Sigurjón er mikill velgjörðarmaður safnsins og hefur með konu sinni, Auði Eiríksdóttur, fært því marga góða gripi.

 

Hér segir af orfi og grindarljá, sem Sigurjón færði safninu á Safnadegi fyrir tveimur árum. Meðfylgjandi mynd var tekin við það tækifæri en þá skýrði Sigurjón fyrir safngestum gerð og notkun grindarljásins.

 

Um daginn færði Sigurjón safninu síðan lýsingu á viðfangsefninu (og nokkra ljái í ljáasafnið). Lýsing hans fer hér á eftir. Eflaust kveiklir hún minningar með einhverjum og þá er bara að setjast niður og skrifa - við þiggjum allar slíkar frásagnir með þökkum. Þær geta orðið verðmæt viðbót við safnið sem þegar er komið.

 

En lesum nú frásögn Sigurjóns:

 

Faðir minn, Valdimar Sigurjónsson, sem bjó í Hreiðri í Holtahreppi í Rangárvallasýslu 1928 til 1964 sló mikinn part af sínum heyskap með orfi framan af búskap.

 

Hann átti og notaði grindarljá (rakstrarkonu) sem slegið var með í svonefndum Flóðum austur af bænum. Þar óx gulstör í keldum og smáflóðum hið næsta heiðinni en blástör í djúpum og víða nokkuð breiðum flóðum þar sem halli landsins var orðinn minni.

 

Farið var að slá Flóðin eftir að heyskap á heimatúni lauk. Var sláttur hafinn á bökkunum en afrakstur þeirra var ekki það mikill að það sem slegið var af stör var fært upp og breitt yfir það. Ef störin var mikil var henni einnig drift yfir á óslegið enda þurrir bakka takmarkaðir og betra að dreifa á óslegið þar sem rakt var undir.

 

Störin var slegin með grindarljánum. Var grindin fest framantil á ljáinn og svo við þjó hans og einnig við orfið, nokkuð þétt.

 

Fyrsti skárinn var sleginn beint á land en síðan þvert yfir og aftur til baka í múga (skára). Var það kallað „að slá úr og í“. Múganum var ýtt að landi, oft í fleiri en einni færu með sterkri hrífu (sætingarhrífu, karlmannshrífu) og störinni dreift í flekk til þurrkunar.

 

Erfitt var að slá Flóðin með grindinni, voru þau djúp á köflum, jafnvel upp á mið læri. Voru þá hælar orfsins oft færðir neðar á orfinu og neðri leggurinn styttur til að auðvelda sláttinn. 1)

 

Stundum, þar sem Flóðin voru breiðust, varð að ýta störinni yfir á öndverðan bakka. Var það neyðarúrræði því þangað varð ekki komist með heybandslestina þegar bundið var og reitt heim. Varð þá að axla baggann og bera á sjálfum sér yfir.

 

Flutningur heim var svo vandasamur því keldur voru rótlitlar og þoldu ekki að oft væri farið yfir þær á sama stað. Varð þá að finna nýja leið fyrir lestina.

 

Glitstöðum í júní 2012.

Sigurjón Valdimarsson

 

1): Þess verður að geta að á myndinni er Sigurjón með annað orf í fangi en það sem hann segir frá í lýsingu sinni - hælar þess eru ekki stillanlegir. Sigurjón hefur hins vegar fært safninu hið umrædda orf - með stillanlegum hælum./BG.