19. júlí 2012

Ljót vinnubrögð - Þjófnaður?

Ágætur nágranni - Vestlendingur - hafði samband við heimsíðung á dögunum og sagði farir sínar ekki sléttar: Á jörð hans hafði verið ráðist að fornri en vel hirtri dráttarvél þýskrar gerðar, sem hann á þar, og undan henni tekin þrjú hjól, svo honum er vélin nú ónothæf.

 

Vonandi fær okkar maður gripi þessa til baka - að sá eða þeir sem brott námu hjólin skili þeim á sinn stað og í sama standi ... að verkið megi flokka undir óvitaskap manna sem enn eiga eftir að taka út nokkurn andlegan þroska svo hallist ekki á við þann líkamlega.

 

Atvikið gefur tilefni til nokkurra hugleiðinga:

 

 

 

Um þessar mundir er gríðarlegur áhugi fyrir uppgerð gamalla dráttarvéla. Misjafnlega gengur mönnum að fá nauðsynlega varahluti auk þess sem þeir eru fokdýrir þurfi að kaupa þá erlendis frá.

 

Meðal þorra raunverulegar fornvélaáhugamanna hafa því komist á ýmis sambönd þar sem hver hjálpar öðrum, reynir að miðla varahlutum - að ekki sé minnst á ráðgjöf og faglega aðstoð, sem miðlað er ómældri.

 

Slíkir hópar gleðjast yfir því að vera til og njóta þess að eiga samneyti við kollega og ekki síður njóta þess að geta aðstoðað - orðið að liði.

 

Í þessum hópum er orðin til veruleg þekking á því sem er til, hvar fornar vélar er að finna og hverjir eru að pússa slíkar vélar upp.

 

Óvitaskapur, eins og hér var sagt frá, mun því fyrr eða síðar komast upp því erfitt er að leyna uppgerðum dráttarvélum, ekki síst ef þær eru af fremur sjaldgæfri tegund eins og hér á í hlut.  Kunnáttumenn þekkja auk þess ýmis sérkenni þeirra og eiga furðu oft auðvelt með að greina upprunann.

 

Landbúnaðarsafn hefur fagnað áhuga manna og gerðum varðandi hirðu gamalla búvéla. Hryggilegt er að hins vegar að heyra um dæmi sem þetta.

 

Þótt allur þorri "safnara" gangi til verks af fullkomnum heiðarleika er þetta dæmi til þess fallið að hvetja þá sem eiga verðmæti i þessum flokki til þess að láta þau ekki liggja á glámbekk - heldur varðveita þau með tryggilegum hætti.

 

Og svo má spyrja hvaða unað sú dráttarvél vekur uppgeranda sínum og töldum eiganda að vera minntur á það við hvert augnakast til hennar að stórir hlutar vélarinnar voru fengnir með vafasömum hætti?

 

Heimsíðungur telur ekki rétt að nafn- eða staðgreina þennan atburð frekar að svo stöddu - en útilokar ekki að nota "frumskógarsímann" til frekari upplýsingaöflunar og - miðlunar...

 

Með góðri kveðju til allra þeirra sem nú njóta sumarsins og sinna fallegri dráttarvél, sem þeir sjálfir hafa unnið fyrir hverrri skrúfu í með einlægri starfsgleði og við upprifjun sólbjartra æskudaga.