5. júlí 2012

Safnadagurinn 8. júlí - Mjólkursagnaganga

Góðkunningi Landbúnaðarsafnsins hefur óskað eftir nánari skýringu á auglýsingu um sagnagöngu safnadags á Hvanneyri, þeirri sem er hér næst fyrir neðan.

 

Skal nú úr því bætt:

Gengið verður um Gamla staðinn á Hvanneyri með gestum sem vilja slást í för.

 

Sagt verður til vegar en þannig að meginþráður frásagnarinnar mun vefja sig um mjólk og sögu hennar á Hvanneyri, allt frá því Stefán amtmaður hafði þar tugi kúa í fjósi í byrjun 19. aldar, Hjörtur skólastjóri Snorrason hóf framleiðslu á smjöri til útflutnings fyrir nær 120 árum, Grönfeldt tók að kenna verðandi rjómabústýrum mjólkurfræði, Halldór Vilhjálmsson fór að framleiða mjólk með nútímalegum aðferðum og allt til síðari ára.

 

Raunar geymir Hvanneyrarstaður breytingasögu mjólkurframleiðslunnar hérlendis síðustu 120-130 árin - og lengur ef allt er talið.

 

Við ætlum að rifja þá sögu upp á sunnudaginn.

 

Létt ganga og allir eru velkomnir; ekki er verra að vera vel klæddur. Gangan mun taka 45-55 mín. eða svo...

 

Vöfflukaffi bíður svo í Skemmunni.