24. júní 2012

Upp í garð til Sæmundar

Að þessu sinni verður fyrir okkur nær 75 ára gömul ljósmynd, komin úr dánarbúi norsks manns, Gravem hét hann, en hann starfaði sem refahirðir á Hvanneyri uns seinna stríðið kallaði hann heim til Noregs.

 

Myndin sýnir hirðingu á Hvanneyri sumarið 1938. Þá hafði um töluvert skeið verið vélvæddur búnaður til hirðingar þar í fjóshlöðunni. Í henni átti að rúmast hey fyrir 80 mjólkurkýr - um og yfir 3000 hestburðir.

 

Mikið verk hefði verið að binda allt það hey (í 6000 bagga) og reiða heim á hestum. Halldór skólastjóri lét því snemma koma upp vélbúnaði til verksins.

 

Vélbúnaðurinn var þannig að eftir brautum í mæni hlöðunnar gekk lyftibúnaðurinn, knúinn mótor um staðbundið spil á hlöðuloftinu.

 

Við sjáum einn fjórhjóla vagnanna sem fluttu heyið af túni og engjum: Sérsniðin varpa/net var lögð á vagnpallinn og á hana var heyinu hlaðið. Tveir menn unnu oftast að hleðslu á hvern vagn og notuðu til þess heykvíslar.

 

Myndir sýna að vörpu var gjarnan brugðið utan um heyhlassið, þannig að sem minnst slæddist úr því af heyi á heimleiðinni.

 

Þegar heim var komið var undirvörpunni krækt í krók heylyftunnar og tignarlega sveif hlassið upp og inn í hlöðu eins og myndin sýnir - rétt eins og á að hafa gerst með göldrum austrí Odda hér um árið.

 

Heimsíðung minnir að tekist hafi að hirða meira en hálft þúsund heyhesta á dag með þessu lagi  ... Það svarar til 200-250 rúllna eða þar um bil? Hreint ekki slæm afköst, en vinnuflokkurinn hefur líklega verið 8-10 kúskar, 10-12 karlmenn (oftast búfræðinemar) og líklega jafnmargar kvenmenn. Í dag snúast 1-2 menn í kringum sama heymagn og veitist létt....

 

Hirðingarbúnaður sem þessi var ekki algengur hérlendis, en þekktist þó á nokkrum hinna stóru búa á fyrri helmingi síðustu aldar.

 

Fjórhjóla heyvagnarnir voru eins konar vörumerki Hvanneyrarbúsins. Breiddust þeir undralítið út þrátt fyrir mikla kynningu. Ef til vill þóttu þeir dýrir.

 

Við vildum gjarnan eiga einn Hvanneyrarvagn í dag, en því miður er það ekki raunin.