2. júní 2012

Landbúnaðarjeppinn

Undanfarnar vikur hefur heimsíðungur haldið uppi nokkrum spurnum um landbúnaðarjeppann.

 

Hefur það borið þó nokkurn árangur því að í hús hafa komið frásagnir, ljósmyndir og ábendingar á öðru formi um það merkilega skeið í íslenskum sveitum þegar jeppinn gekk til hinna ýmsu búverka, margt hvert viðbót við það sem áður hefur verið skrifað og birt um þessi merkilegu tæki.

 

Kæru lesendur, haldið endilega áfram að miðla fróðleik um þetta knappa skeið í tæknisögu landbúnaðarins, vart meira en 10-15 ár að lengd (1945-1955/1960) þegar bændur beittu jeppa til jarðvinnslu, ávinnslu og heyverka auk flutninga sem síðar urðu meginviðfangsefni þeirra.

 

Hér liggur þjóðarstolt við því margt bendir til þess að íslenskir bændur hafi haft nokkra sérstöðu í þessum efnum:

 

Þótt Ameríkumenn og Bretar hafi auglýst jeppa og Land Rover-bíla sem landbúnaðartæki, var notkun þeirra til búverka, annarra en flutninga, takmörkuð að því er virðist, líklega vegna þess að dráttarvélarnar skutu þeim fljótlega ref fyrir rass.

 

Vinnuaflsskortur til sveita á seinni hluta síðari heimsstyrjaldarinnar ýtti bændum út í hraða vélvæðingu, sem kunnugt er. Þá var líklega ekki alltaf tími til þess að ígrunda vandlega hvað hentaði í hverju tilviki, og það raunar ekki alltaf tiltækt eða fáanlegt.

 

Verkfærakostur með jeppunum var ósköp fátæklegur. Hlutskipti þeirra margra var því að fá gömlu hestaverkfærin til dráttar, hvort sem var herfi eða hestasláttuvél. Hjá annmörkum varð ekki komist.

 

Þróunin hélt áfram og jeppinn fann sína fjöl í þágu bænda sem hið lipra flutninga- og samgöngutæki.  Dráttarvélarnar tóku aflfrekustu innangarðsverkin að sér ...