1. maí 2012

Sláttuvél á Land Rover - hefurðu heyrt um hana?

Á jólaföstunni 1948 kynnti Hekla hf enska landbúnaðarbifreið, Land Rover, er með tímanum varð hluti íslenskrar sveitamenningar.

 

 

Aulýsingapésar þeirrar tíðar greina frá því að fá mætti ýmsar búvélar við bifreiðina, þ.m.t. sláttuvélar.

 

Skv. blaðafregnum voru þær þó smíðaðar utan Rover-smiðjanna í Birmingham.

 

Nú voru sláttuvélar hvað eftirsóttustu verkfærin sem bændur á þessum árum sóttust eftir að fá með hinum nýju aflgjöfum, einkum dráttarvélunum.  

 

Heimsíðungur er að kroppa saman bókarkafla um landbúnaðarjeppann á Íslandi. Af þeim sökum langar hann til þess að spyrja um það hvort einhver kannist við að fasttengd sláttuvél hafi notuð við Land Rover-jeppa ?

 

Upplýst skal að einn heimildarmaður undirritaðs hefur heyrt að amk ein slík hafi komið og þá á Land Rover-jeppa sem var í Önundarfirði. Unnið er að uppljóstrun þess máls.

 

Land Rover tók nokkurn þátt í innan garðs búverkum hérlendis, einkum heyflutningum, og að einhveju marki dætti múgavéla, en fáu öðru að því er heimildir herma.

 

Willys kom við sögu fleiri búverka enda fyrr á ferð og þá um tíma í beinni samkeppni við dráttarvélarnar. Sérhæfingin á milli jeppa og dráttarvéla hafði komið til sögunnar þegar Land Rover mætti til starfa.

 

En kannast einhver við minningu um það sem meðfylgjandi mynd sýnir?

 

Simi Landbúnaðarsafns er 844 7740 og netfangið bjarnig@lbhi.is

 

Með Land Rover-þökkum