27. apríl 2012

Jeppatíðindi og kappsláttarfréttir

Í marslok- auglýstum við sem oftar eftir fróðleik í Bændablaðinu. Við spurðum annars vegar um myndir af jeppasláttuvélum og hins vegar hvort einhverjir gætu frætt okkur um síðustu kappslættina.

 

Bændablaðið er sýnilega mikið lesið því viðbrögðin urðu veruleg, satt að segja. Styðja þau við þá kenningu sem heimsíðungur hefur sem söfnungur: Það er allt til, spurningin er bara hvar það er og hvenær það kemur. Þannig munu blöðin í þá fornfrægu bók, Skáldu, líklega koma einn daginn, þau eru nefnilega til ...

 

Já, margir hafa brugðist vel við og sent ágætar myndir af jeppum við slátt: Flestir eru að vísu með hestasláttuvélar aftan í sér - enda var það algengasti hátturinn, en furðu margar myndir hafa samt fengist af jeppasláttuvélum - þ.e. sláttuvélum sem voru tengdar beint á jeppann og við drif hans.  Slíkar vélar komu ekki margar til landsins.

 

Líka hafa borist myndir af jeppum við fleiri innan-garðs-búverk svo sem heysnúning og rakstur, sem og heydrátt og hirðingu.

 

Allt er þetta þakkarvert og kemur heimsíðungi vel því hann er að reyna að berja saman bókarkafla um landbúnaðarjeppann - viðauka við þau jeppafræði sem þegar liggja fyrir á íslensku.

 

Öllu þynnri eru heimildirnar um kappsláttinn en þó hafa þar komið bendingar sem draga fram hversu héraða- og tímabundin sú skemmtun manna var á sínum tíma. Ungmennafélögin voru oftast vettvangurinn: Í sumum héruðum var iðjan óþekkt en afar algeng í öðrum.

 

Með þessum línum er vakin athygli á stöðu fróðleikssöfnunarinnar, en mínir ágætu lesendur:

 

Ef þið lumið á frekari fróðleik, efni, ábendingum eða vitið af líklegum heimildarmönnum, bið ég ykkur endilega að hafa samband ... Um allt munar!