14. apríl 2012

Víða fer hann Ferguson ...

Oft hefur heimsíðungur vitnað til og byggt ritningar sínar hér á síðunni á efni sem velunnarar safnsins hafa borið honum. Svo er einnig nú.

 

Starfsfélagi ágætur var á reisu niðrí Eþiópíu fyrir fáeinum vikum. Eþíópía er merkilegt land þar sem Haile Selassie var keisari og stórbóndi um langar hríðir. Minnist heimsíðungur helst þess að hafa séð fallegar myndir frá kristniboðinu í Konsó þar niðurfrá - en ekki síður hreifst hann af geitahirðunum keisarans sem hlupu alla af sér á Ólympíuleikum. Var ekki Akibúa þeirra fráastur? Jóhanna á Háafelli hefði þurft að ráða hann í vinnumennsku.

 

En frá Eþíopíu hafði félagi minn með sér merkilegan bankaseðil og færði okkur:

 

Þar í Eþiópíu nota þeir mynteininguna BIRR. Hún er heimsíðungi framandi, en sjálfsagt má gúggla hana til árangurs. Hins vegar minnir nafn hennar ögn á hvatningarhljóð á smalahunda sem brúkað var í uppvexti heimsíðungs.

 

Félagi gaf okkur heim kominn 10 BIRRa seðil, sem virðist svara til 73 króna eða svo hér norðurfrá.

 

Á framhlið seðilsins er iðjusöm kona að ríða tágakörfu af miklum hagleik (sjá fyrri myndina).

 

Baksíðan er líka merkileg, sjá mynd: Þar er verið að erja jörð. Við sjáum ekki betur en að þar sé Ferguson - raunar Massey Ferguson að störfum .... að plægja akur ... Hvort þetta er MF 185 eða hvað skal ósagt látið, en af myndinni má læra:

 

 

 

 

 

 

 

  • Ferguson má finna undir mörgum himinhvelum
  • Undirstaða gjaldmiðils er alúðarfull og kunnáttuborin iðja og ræktun
  • Að hafa mynd af konu við ullariðn og dráttarvél að störfum í vormyldnum akri á 10 þús.kallinum sem hann Már ætlar að fara að gefa út (ég segi í anda Fords: Mér er sama hver dráttarvélategundin er svo lengi sem það er Ferguson -  ).

 

Starfsfélaganum er þökkuð hugulsemin - og 10 BIRRa-seðillinn...