7. apríl 2012

Gleðilega páska!

Kominn er laugardagur fyrir páska og mál að senda tryggum lesendum þessarar síðu, og hinum líka, páskakveðju. Páskar eru hátíðin sem á tilefni sitt í sigri lífsins yfir dauðanum. 

 

Þessa dagana sjáum við raunar allt um kring okkur tákn um hliðstæðuna. Vorið er að brjóta af sér viðjar vetrarins.

 

Vissulega er veturinn ekki dauðanum merktur: Náttúran á okkar slóðum liggur í dvala á meðan jarðarkúlan baðar aðra fleti sína í sól og sumaryl.

 

Í Andakíl eru farfuglar ýmsir þegar komnir. Okkur þótti fyrsti hópur blesgæsa koma undarlega snemma þetta árið - í marslok. Ef til vill var það vegna "easy jet" í óbeinum skilningi, óvenju sterkra og suðaustlægra vindstrengja sem sköffuðu fuglunum ódýrt far.

 

Þrösturinn er farinn að gera sig hreiðurlegan og þurrlendari nýræktartún komin með grænan lit. Ætli krummi fari ekki brátt að búa út laupinn sinn hérna í Ásgarðshöfðanum?

 

Fyrstu nemendurnir hafa kvatt Hvanneyri og haldið til verknáms í vorinu víða um land.

 

Við látum málefni safns liggja í lág að mestu fram yfir páska.

 

Gestakomur hafa verið allnokkrar undanfarið. Fyrra laugardag kom t.d. stór hópur 40 ára búfræðinga. Skömmu áður höfðu 25 ára nemendur kíkt við í safninu. Slíkir hópar eru alltaf aufúsugestir - þeir rifja upp minningar sínar og eru afar áhugasamir um safnið og gripi þess. Í þeim hópum eru jafnan ýmsir af velgjörðarmönnum safnsins.

 

Njótið páskanna og vorsins sem þeir boða í mörgum skilningi.