4. febrúar 2012

Þekkir þú svona grip?

Marglýst er yfir að árið 2012 er ár orfs og ljáa í Landbúnaðarsafni. Því er enn höggvið í sama ljáfarið -  það á eftir að gerast oftar er fram á árið líður.

 

 

Ágætar konur, er vinna það þjóðþrifaverk að halda úti Nytjamarkaði í Brákarey í Borgarnesi, bæði til eflingar sjálfbæris í samfélaginu og til útvegunar fjármagns til uppihalds þarfra ungmennaíþrótta á því svæði þar sem Egill Skallagrímsson leið bernskur af rítalínþurfandi unglingaveiki, komu í fyrradag færandi hendi:

 

Þær færðu safninu gripinn sem hér með fylgja af tvær ljósmyndir (bendlið svo stækka megi ).

 

Við fáum ekki betur séð að þarna sé á ferð það sem kalla mætti á upphöfnu máli brýnisbikar:

 

Haganlega smíðað/rennt smákerald úr tré, ca 6 cm í þvermál og 25 cm á hæð. Á hlið þess er rifa svo bikarnum má stinga á belti og niður úr honum gengur oddur svo skorða má bikarinn í nýslegnum grassverðinum. Vatn má hafa í bikarnum og í brún hans er far líklega orðið til eftir slit brýnisins (sem á stendur BERGIN).

 

 

 

 

 

Verið er að rannsaka hvaðan gripurinn kom á Nytjamarkaðinn.

 

Nú er spurt: Kannast einhver við svona grip, eða hliðstæðan?

 

Heimsíðungur hefur lagt spurninguna fyrir safnmenn á póstlista þeirra - en enn hefur enginn kannast við efnið.

 

Hér áður fyrr létu víst flestir sér nægja að hrækja á brýnið, þeim mun ákafar sem þurrara var í veðri og verr beit. Sögðu stundum eitthvað ljótt íleiðinni. Líka struku menn brýninu í döggvott grasið, ef svo var, fyrir brýnslu.

 

Sjálfur man ég að borin var líters ávaxtadós, notuð, með út í slægju til þess að halda brýninu vel blautu, dós sem kannski hafði fallið til eftir síðustu heimsókn alþingmannsins, prestsins eða frændfólksins "að sunnan" ... Niðursuðudósir voru nfl verðmæti á þeim tíma, sem maður lék sér ekki með, hvað þá henti, fyrr en öllum öðrum þörfum búsi og heimilis fyrir niðursuðudósir, hafði verið fullnægt...

 

En hér var sýnilega gengið lengra hvað brýnisbikar snerti: Hann sérsmíðaður, annað hvort af nálægum handverksmanni ellegar keyptur tilbúinn í versluninni - og þá  kominn úr framandi löndum ef til vill frá Kaupmannahöfn konungsins, þess borðumskrýdda riddara er landsmenn dáðu settlega þar sem þeir börðu ómælisþýfið undir bláhimni íslenskrar blíðsumarsnætur ellegar í breyskju rísandi morgunsólar...

 

Ef einhver þekkir til svona áhalds, ellegar hliðstæðs, bið ég hann endilega að senda línu á bjarnig@lbhi.is

 

Hafið bestu þakkir! Og svo er konunum, er burgu gripnum, sérstaklega þökkuð gerðin - að sjálfsögðu.