12. janúar 2012

Nei, min gode herre ...

Efni klausunnar í dag er í samræmi við yfirskrift ársins 2012:

 

30. júlí árið 1900 kom Friðþjófur Nansen við á Dýrafirði á leið sinni til Grænlands. Hann gjörði stans hjá vini sínum kaftein Berg hvalveiðimanni í Framnesi.

 

Þar í túnkarga gekk Nansen fram á Sighvat Grímsson Borgfirðing, bónda og fræðimann á Höfða, sem stóð við slátt. Nansen skrifaði í dagbók sína: "han hollt just på med å barbere en gress-tuve met et lite stutt-orv" - rakaði sem sagt grasþúfu með stuttorfi sínu.

 

Stutt-orf er sérstök gerð orfa sem vel er þekkt í Noregi - hælalaust skaft eiginlega.  Nú hafa menn bent á að slík orf hafi aldrei verið notuð hér á landi - en að Nansen hafi þótt orf Sighvatar vera stutt og því notað þetta orðfæri.  Nansen var jú meiri landkönnuður en sláttumaður, að talið er.  Þetta skulum við samt þjarka um seinna ...

 

Nansen spurði Sighvat hins vegar hvort ekki væri nær að plægja landið og slétta það svo auðveldara yrði með sláttinn?

 

Þá svaraði Sighvatur, sem var prýðilega mæltur á dönsku: "Nei, min gode herre, da vilde det jo bli så meget mindre overflate at vokse gress på" ... Nei, herra minn, þá verður yfirborðið svo miklu minna sem gras vex á ....

 

Það var nfl stráafjöldinn sem var takmarkandi á þeirri tíð. Sighvatur kunni geómetríuna og vissi líka að takmarkaður fjöldi stráa kemst fyrir á hverri feralin lands. 

 

Síðan bauð Sighvatur Friðþjófi Nansen í bæ sinn, bókum og handritum hlaðinn, og líklega í kaffi áður en landkönnuðurinn hélt skipi sínu til hafs - úr sólbökuðum Dýrafirði til móts við ísbirni, hafís, þokur og jökla hins sumarbjarta Norðurs.

 

Upplifun dagsins færði Nansen hins vegar í dagbók sína, er varð grundvöllur bókar hans Frilufts-liv Blade av dagboken, og kom út í Kristjaníu 1916.