9. desember 2011

Af borgfirskum annálaritara samtímans

Óskar Þór Óskarsson heitir maður ágætur. Býr í Borgarnesi. Óskar er einn af velgjörðamönnum Landbúnaðarsafns sem hávaðalaust leggur sitt lið.

 

Á dögunum færði hann safninu kvikmynd (DVD), sem hann hefur unnið upp úr myndatöku sinni á Farmal-fagnaði 16. júlí sl.

 

Einhverjir kunna að hafa séð stubba úr  tökum Óskars á hinum sólríka Farmal-degi, sjá m.a. http://is-is.facebook.com/people/Óskar-Þór-Óskarsson/1588324829

 

Fátt er betra til skráningar annála með framtíðarþörf í huga en kvik mynd. Óskar Þór hefur unnið ötullega að töku, vinnslu og varðveislu slíkra mynda, er nú mynda gríðarlegt heimildasafn.

 

Heimsíðungur minnist m.a. komu hans í safnið haustdag einn í lok síðustu aldar. Auk tækja sinna hafði hann þá með í för aldraðan bónda úr Borgarfirði, hvers dráttarvél var þá komin í safnið. Óskar skráði þar hljóð og mynd frásagnar bóndans af dráttarvélinni og þeim árum er þau tvö áttu saman við marga búsönnina, bæði í sól og regni.

 

Nú er bóndinn horfinn til hinna himnesku tjaldbúða þar sem akur ei blettar og skyggir ei tréð, hvað þá að rauð dráttarvél drynji þar um völlu. Kvikmynd Óskars geymir hins vegar augnablikið sem eitt sinn var: telst nú einstök heimild um þennan góða safngrip og fleira.

 

Þannig hefur Óskar Þór mörgu augnabliki bjargað, og það sem meira er: Um árabil stytti hann öldruðum á Dvalarheimilinu í Borgarnesi stundir með sýningum á mynd efni sínu. Gagnvirkt var það starf í betra lagi.

 

Landbúnaðarsafn Íslands þakkar Óskari Þór fyrir hugulsemina, vekur athygli þína á merkilegu starfi hans og óskar honum árangursríkis og velfarnaðar.