1. desember 2011

Fyrsti desember, fullveldið og fyrsti traktorinn

Á þessum merka degi, fullveldisdeginum, fyrsta desember, minnumst við árangurs margra ára baráttu margra fyrir því að Ísland yrði aftur frjálst og fullvalda ríki. Mættu sem flestir í dag taka stutta stund í að hugleiða það og þakka - og minnast þess þá um leið að fullveldi er ekki einnota vara - baráttan er eilíf.

 

1. desember 1918, þá fagnað var fullveldinu, hafði fyrsti traktor landsmanna átt rúma þrjá mánuði á íslenskri grund. Þótt traktorinn hyrfi vonum fyrr úr sögunni markaði hann upphaf mikilla breytinga - tíma eins konar fullveldis bænda í baráttunni við þúfur og erfið verk jarðvinnslu og heyskapar.

 

Traktorinn markaði líka upphaf tímanna er losnaði um vinnuafl frá erfiðum búverkum til nýrra og vaxandi starfa á öðrum sviðum samfélagsins. Vélaraflið tók við af vinnuaflinu.

 

Alþekkt saga svo sem - en það má vel minna á samhengið: Jóni Sigurðssyni forseta nægði ekki að efla og ástunda hina pólitísku baráttu fyrir sjálfstæði eingöngu.

 

Jón vildi líka efla atvinnuvegina, kunnáttu og verktækni landsmanna, bænda og sjómanna, - mundum við ekki í dag tala um nýsköpun og framleiðniaukningu í því efni?

 

Fyrsti traktorinn og fyrsti desember eiga því nokkurn samhljóm - og hljómar það ekki líka dável á Degi íslenskrar tónlistar?

 

Enginn er þó eyland ....