23. nóvember 2011

Girðingarstaur - Girðingargormur

Jörðina Árdal í Andakíl rækir og ræktar góðbóndinn Pétur Jónsson. Hann er einn af helstu velvildarmönnum Landbúnaðarsafns. Árla helgan dag einn í haust færði hann safninu sérstæðan girðingarstaur, sjá mynd.

 

Staurinn hafði Pétur tekið upp og til handargagns við tiltekt, breytingar og lagfæringar þar í Árdal.

 

Heimsíðungi þótti staurinn hinn merkilegasti og því fær hann nú fáeinar línur.

 

Vírgirðingar eru menningarminjar nútímans. Var ekki gaddavírinn fundinn upp í kringum Búastríðið?; það minnir mig Laxness segja í einhverri bóka sinna...

 

Vírgirðingar munu hafa farið að tíðkast hérlendis í upphafi síðustu aldar. Þótt mest hafi menn nú brúkað tréstaura voru innfluttir járnstaurar líka notaðir. Heimsíðungur á eftir að segja ykkur frá einum þeim fyrsta og merkasta - eintak hans er fyrir nokkru komið í safnið og er þar til sýnis.

 

Þessi gormstaur, sem kom fá Árdal, er okkur nokkuð umhugsunarefni. Hann er gerður úr stáli og hefur varist borgfirskum saltveðrum undra vel. Fjórar lykkjur eru á honum sem haldið geta varnarvírum á sínum stöðum.

 

Gormfóturinn gerir það að verkum að enga stund hefur tekið að skrúfa hann fastan við fósturjörðina. Fljótlegt hefur einnig verið að þræða vír a gegnum lykkjur hans.

 

Því hefur hvarflað að okkur að hér kunni að hafa verið á ferðinni hergóss - ætlað til þess að í fljótheitum mætti koma upp skíðgarði er varið gæti hinn réttláta málstað, hver sem hann nú annars var.

 

Við Jóhannes Ellertsson höfum giskað á að hér færi ef til vill áhald úr landi Sáms frænda (BNA/USA), þá líklega orðið til og notað í kringum seinni heimsstyrjöldina ???

 

Síðan hafi þetta eins og margt annað hergóss orðið þarft friðsömum bændum íslenskum sem vildu halda ám sínum og öðru kvikfé utan varinna ræktunarlanda, en skiptu sér að öðru leyti ekki af gangi heimsins eða valda(ó)jafnvægi hans.

 

Birt er ljósmynd af gripnum til þess að kunnugir geti virt staurinn fyrir sér og ef til vill lagt okkur til meiri fróðleik um hann:

 

Hafið þið séð svona girðingarstaura?

Hvar?

Hvenær?

Hafið þið grun um hvaðan þeir muni hafa verið komnir?

Skyldu einhverjir slíkir enn vera í notkun?