18. nóvember 2011

Ferguson-áburðardreifari

Um langa hríð hefur hér á síðunni verið þagað yfir Ferguson-málum sérstaklega. Nú má ei lengur við svo búið standa. Á dögunum bættist safninu nefnilega gagnmerkur gripur af kynstofni Fergusonar.

 

Hross eru til margra hluta nytsamleg. Frá Hvanneyri var nefnilega á dögunum farið með hrossið Viðju, komið á fermingaraldur, til innleggs í sláturhúsið á Hvammstanga. Hrosseigandinn var svo vinsamlegur að koma við á bænum Syðri-Völlum, þar rétt sunnar, og taka með sér til baka aldinn þyrildreifara sem þar var, geymdur safninu.

 

Sá var seldur hérlendis um miðjan sjötta áratuginn. Kominn var hann frá Coventry eða hafði a.m.k. fengið samþykki þar fyrir lit sínum og messing-Ferguson-spjaldinu. Hvort tveggja skildi þá á milli feigs og ófeigs.

 

 

Þannig stóð á skrefi um miðjan sjötta áratuginn að miðflóttaaflsdreifarar fyrir tilbúinn áburð voru að koma til íslenskra bænda. Þóttu þeir þægilegir og ódýrir, og um margt hentugri en skála- og sálddreifararnir, sem átt höfðu þennan markað þá um nokkurra áratuga skeið.

 

Slíkur dreifari freistaði m.a. hyggins norðlensks bónda. Við skulum því lesa frásögn sonar hans, Björns Pálssonar, áður skjalavarðar Árnesinga, en það er saga Ferguson-dreifarans, sem fréttakafli þessi snýst um:

 

„Foreldrar mínir Páll Guðmundsson og Sigurdrífa Tryggvadóttir munu hafa fengið kastdreifarann vorið 1957 fremur en 1958. Þau voru þá búandi í Saltvík, Reykjahreppi, S-Þing.

 

Það er okkur í minni að fyrst var hann reyndur á nýrri túnsléttu nyrst í túninu sem þá var.  Eitthvað mun stillingu hafa verið ábótavant þar sem dreifarinn tæmdist mjög hratt í fyrstu ferð. Þar brann undan en næstu sumur varð þessi fyrsta dreifingarrönd öðrum grænni og fyrri til uppskeru.  Hin óskaða stilling fannst fljótlega og dreifarinn reyndist vel og eldri ristardreifurum mun hetugri til áburðar á óslétta og skæklótta túnbleðla.

 

Um miðjan júní 1960 fluttum við austur til Eiða þar sem búið var næstu tvö árin. Bræður mínir tveir, Eiríkur og Ketill, fóru mánuði fyrr austur með strandferðaskipinu Esju. Með í för var grár Ferguson, fyrsta dráttarvél fjölskyldunnar, fengin í júní 1951.

 

Dreifarinn var með í þeirri för, fasttengdur við dráttarvélina og geymdi mestan farangur þeirra bræðra á siglingunni og ökuförinni frá Reyðarfirði (Búðareyri) til Eiða.  Eiðatún var víða hólótt, bratt og skæklótt þannig fasttengdur kastdreifari hentaði vel þar.

 

Tvisvar sinnum mun það þó hafa gerst þegar ekið var greitt upp brattan hól með fullan dreifara að Grána (Fergusoninn) prjónaði, þ.e. framhjólin hófust upp frá jörðu. Ekki hlaust þó nokkurt slys af þar sem sú gráa sneri sér um 180° á öðru afturhjólinu, skall niður á framhjólin og hélt ótrauð til baka niður hólinn.

 

Dreifarinn kom með okkur til Syðri-Valla í V.-Hún. í júní 1962 og var notaður þar við búskap foreldra minna árin 1962-1966, búskap minn þar 1967 og 1968 og Eiríks bróður míns árin 1969 og 1970. Eiríkur telur að dreifarinn hafi síðast verið notaður á Syðri-Völlum sumarið 1970 og þar hefur hann legið síðan.

 

Fleira ekki að sinni.

Hveragerði 05.02. 2011. Með kveðju, Björn Pálsson.”

 

Þegar dreifarinn var kominn að Hvanneyri núna í nóvember gerðist það næst að heimsíðungur og Jóhannes Ellertsson vélameistari fóru yfir dreifarann hátt og lágt með lagfæringu í huga, hvað kosta mundi og hvernig best mundi gerast. Það var eins konar innhverft umhverfismat, eins og alltaf er gert áður en í hugsanlegar lagfæringar safngripa er ráðist.

 

Sem safngripur er dreifarinn merkur fyrir

a. aldur sinn verandi einn elsti miðflóttaaflsdreifarinn í lýðveldinu,

b. ætterni sitt, þ.e. Ferguson, og þá viðbót sem hann er Ferguson-verkfæraflóru safnsins,

c. sérkenni, m.a. svokallað Oldhams-tengsli á frumstæðu drifskaftinu, því vitanlega var hann drifknúinn frá dráttarvél og þrítengdur við hana, og

d. skráða ævi- og eigendasögu.

 

Það horfir því í það að dreifarinn verði farinn að glansa herskipagrár í elli sinni áður en næsta sól kemst í sumarhágöngu.

 

Við þökkum Syðri-Valla-bændum fyrr og síðar fyrir að halda hlífiskildi yfir þessum umkomulitla áburðardreifara.