12. nóvember 2011

Brennimörk - að vera brennimerktur

Aðeins kom fyrir um þeitta leyti árs hér áður fyrr meir - og gerist líklega enn - , er fé tók að nálgast hús, og bændur höfðu höndlað með fé, eigið og aðkeypt, að grípa þurfti til brennimarks.

 

Margir áttu brennimark og eiga svo sem enn; haganlega smíðaðan málmstimpil sem glóhitaður var í smiðju ellegar við mótorlampa og borinn að horni. Sauð þá notalega í og upp steig reykur með sérstökum brennisteinskeim. Eftir sat brennimarkið svo lengi sem kindin bar horn sitt. Af því kemur víst orðtakið - að vera brennimerktur . . .

Heimsíðungur leyfir sér að benda á eftirfarandi síðu hvar sjá má dálitla myndasyrpu af brennimerkingu - fallegar og vel gerðar myndir:

 

http://www.flickr.com/photos/johannamagg/4605230778/in/photostream/ 

 

 

Það að smíða brennimark féll gjarnan í hlut hagleikssmiða sem sérlega voru vel að sér um handverk á málma. Alþýðusmiðum gat lukkast verkið bærilega ef ekki var um að ræða hring- og sveigstafi í brennimarkinu, svo sem D, S, Þ, B, Ó, P ofl.

 

Mörg brennimörk eru listilega vel gerð og bera höfundi sínum fagurt vitni. Þau eru því ekki aðeins minjar um merkingu og mörkun sauðfjár heldur einnig hluti af handverkssögunni.

 

Mörgum brennimörkum hefur skolað inn á söfn og sýningar, t.d. til Sauðfjársetursins á Ströndum - að Sævangi. Landbúnaðarsafni hafa áskotnast allnokkur. Margir geyma brennimörk forfeðra sinna sem ættargripi. Það er fallega hugsað og gert.

 

Um daginn hitti heimsíðungur norðlenskan mann sem á fleiri merkisspjöld bifreiða en sennilega nokkur annar Íslendingur. Sá er líka afar fróður um sögu spjaldanna og merki bifreiða.

 

Flýgur oss því í hug hvort fyrirfinnast muni Íslendingur sem sérstaklega hefur lagt sig eftir brennimörkum, annað hvort á héraðsvísu sína ellegar landsvísu. Gaman væri að frétta af honum.

 

Landbúnaðarsafn tekur fúslega við "brennimörkum" enda fylgi þeim saga þeirra, svo sem um aldur, smið, eiganda og notanda.

 

Sauðfjársetrið á Ströndum er ekki síður réttur staður til varðveislu brennimarka, sjá  www.strandir.is/saudfjarsetur