29. október 2011

Leiðir til réttlætis varðandi nýtingu lands

Þingeyskur heimildarmaður greindi heimsíðungi frá því á dögunum hvernig háttað hefði verið nýtingu engjalanda á uppvaxtarárum hans þar norður frá.

Margbýli var á jörðinni, þar sem heimildarmaður óx úr grasi, og engjalönd ekki ótakmörkuð en þau voru mikilvæg undirstaða vetrarfóðursins. Gripahald ábúenda var aðskilið þótt ýmis verk væru unnin sameiginlega.

 

Nú voru engjalönd jarðarinnar misgrasgefin og misgreiðfær eins og gengur. Til þess að jafna þann mun á milli ábúenda var sú regla höfð að hvert heimili (býli) nýtti hvern engjapart ár í senn. Síðan var skipt. Heimilin voru fjögur og því kom hver engjapartur í hlut hvers ábúanda fjórða hvert ár. Þannig vildu menn tryggja réttláta skiptingu engjanna til fóðuröflunarinnar.

 

Eitt engjastykki á bænum var hins vegar heyjað sameiginlega af öllum. Kom þá að þeirri jöfnun að tvö og tvö heimili sáu um veitingarnar hvort ár. Heimildarmaður tjáði heimsíðungi að hinn sameiginlegi heyskapur heimilanna hefði þótt sérstaklega skemmtilegur: margt af ungu fólki, líf og fjör.

 

Sambærileg dæmi um jöfnuð við nýtingu landsins má vafalaust finna víða um land frá tímanum fyrir stórræktun heimatúna og vélvæðingu heyskaparins, og jafnvel síðar.

 

Spurnir hefur heimsíðungur þannig af því að vélræktuðum spildum á Skógasandi hafi með tilteknum hætti verið skipt á milli nýtenda þannig að þeir sætu allir að jöfnum hlut. Einn helsti forgöngumaður ræktunar sandsins var þingeyskur, svo vera má að hann hafi viljað nýta góða reynslu úr heimahéraði er kom að því að skipta aðgangi að nýræktinni réttlátlega.  

 

Á tveimur jörðum í Andakíl var úthagi sameiginlegur en túnum og engjum skipt. Meðal annars var þar lítið engjastykki, sem kallaðist Óskipta, væntanlega í samræmi við eignarhald á því. „Var það slegið til skiptis frá bæjunum“ segir í Örnefnaskrá: Að við ætlum til tryggingar nokkrum jöfnuði.

 

Í Keldudal í Dýrafirði er engjastykki sem heitir Samvinna. „Það var óskipt land á milli ábúenda á Arnarnúpi, en þeir voru oft margir áður fyrr“ hermir Örnefnaskráin. Enginn er lengur til frásagnar um það hvernig staðið var að slætti og heyöflun þar á Samvinnu. Nafnið bendið til þess að ábúendur hafi haft samstarf um verkin – og þá líklega ekki síst til þess að tryggja það að allir bæru jafnan hlut frá borði.

 

Ef til vill kannast einhver lesenda við reglur sem þessar eða sambærilegar úr öðrum héruðum. Gaman væri að heyra af þeim, og þá er minnt á netfangið bjarnig@lbhi.is

 

Fyrr á öldum byggðist afkoma fólks á því að skynsamlega væru nýttar þær takmörkuðu auðlindir sem landið bjó yfir. Nokkur ákvæði þjóðveldislaganna benda einmitt til þess, t.d. reglur Grágásar um selfarir og nýtingu beitilands og skóga.