16. október 2011

Meira um brýnslu - heimildarmaður segir frá

Vart hafði "blekið" á síðasta pistli þornað er heimsíðungi barst svar við spurningunum sem þar voru lagðar fyrir. Svarið var frá tryggum lesanda síðunnar sem þráfaldlega hefur sent línur með fróðleik.

 

Með leyfi skrifarans er meginhluti svars hans birtur hér á eftir en tekið skal fram að fleiri hafa brugðist við spurningunum. Það þakkað en um leið eru fleiri hvattir til þess að "stinga niður penna".

 

 

 

"Í fyrsta lagi sneri ég orfinu og rak endann tryggilega niður, því gott var að hvíla fram á orfið meðan brýnt var og varasamt að það gæfi eftir. Ég var svo lítill, þegar ég byrjaði að slá, að ég lét orfið hvíla við brjóstið meðan ég brýndi ljáinn efst og færði það svo neðar, eftir því sem framar dróg og endaði niðri í nára og hélt þeim vana þó ég stækkaði.

Fyrstu skiptin eftir "álagningu" ( að leggja á = brýna á hverfisteini) voru þetta léttar, langar strokur með litlu horni á eggina og gjarnan bara lagður flatur lófi á bakkann.

Eftir því sem fínasta bitið fór að minnka, fóru strokurnar að styttast, verða fleiri, ákveðnari og smátt og smátt þverari á eggina. Þá hafði ég þumalfingurinn beinan við bakkann og hina kreppta á móti.

Sennilega hafa færurnar mest orðið fjórar til fimm, oddurinn fékk oft nokkrar aukastrokur. Ég veit ekki hvernig ég get lýst beitingu brýnisins, en slitið brýni leit út eins og relluspaðar.

Ég man ekki eftir neinu fleira nema kannski, að ég hafði brýnið alltaf í vasa milli brýninga en margir héldu á því í vinstri hendi og fljótlega kom far eftir það í hælinn.

Mér fannst það óþægilegt, sennilega vegna smæðar handanna.

Myndin, sem lögð er með þessum pistli, sýnir Vestur-Skaftfelling brýna. Myndin er tekin traustataki úr einni af mörgum ágætum bókum Þórðar Tómassonar í Skógum. Beðist er velvirðingar á því en tilgangurinn helgar meðalið.

 

Brýnsluháttur Skaftfellingsins er sérstæður eins og heimildarmaður úr Biskupstungum hefur skrifað heimsíðungi sérstaklega um. Kannast einhver við þennan hátt?

 

Minnt er á netfangið bjarnig@lbhi.is og símann 844 7740