22. september 2011

Um tölvur, ljái og flugbeitta kuta...

Óvenjulangt hlé hefur orðið á nýfærslum hér á síðunni, svo kvartað var.  En þannig stendur á skrefi að tölva heimsíðungs brást honum þegar verst gegndi. Kunnáttumenn eru nú að koma vitinu fyrir hana að nýju.

Svo var það hitt, sem tafði heimasíðuhirðu, að heimsíðungur brá sér til Noregs þar sem hann fór m.a. í heimsókn að Geilo. Það er þorp skammt undan brún Harðangursheiðar. Þar er verksmiðjan Brusletto sem m.a. smíðaði hina þekktu Eylandsljái. Þeir voru í svo til hvers manns orfi um miðja síðustu öld.

 

Nú smíða Brúarsléttungar ekki lengur ljái, aðeins hnífa, og raunar er óvíst hve lengi sakir þess að þeir íhuga nú flutning verksmiðjunnar til Spánar eða Ítalíu sakir rekstrardýrleika í Noregi. 

 

Með norskum ljáfræðikollega hittum ég hins vegar síðasta ljáasmiðinn, Magnus Haugen heitir hann, kannski segir meira af honum síðar.

 

Bernskur hafði Magnus það sumarhlutverk að líma rauða miða á "Íslandsljáina"  hvar á stóð Eylandsljár. Hann sagði okkur sögur af ljáasmíðinni og sendingunum til Íslands.

 

Þar sem ég sat við skör Magnusar við stofugluggann hans er vissi yfir þröngan Hallingdal leið mér eins og ég hefði hitt Torfa í Ólafsdal...

 

Magnus jók mér mjög þekkingu á ljáum og ljáasmíði. Einn daginn verður það skrifað til birtingar, þótt fáu breyti um framtíð úr þessu.

 

Heim með mér hafði ég hins vegar flugbeittan kuta frá Brusletto í kýrhúðarhulstri. Sá mun minna mig á merka iðju þar í háfjalladalnum, sem íslenskir bændur nutu um langt árabil: hárbeitta einjárnungs-ljái sem sungu í grasi um allt land á heyönnum.