11. september 2011

Margmennt málþing að Fitjum

Vel á fimmta tug gesta sátu vel heppnað málþing um Guðmund Ólafsson á Fitjum í gær. Fram-Skorradalur heilsaði gestum í fegursta síðsumarsskrúði, og ekki var viðurgerningur heimafólks þar á bænum af hinum lakari enda.

 

Þau Hulda Guðmundsdóttir, Ingi Sigurðsson og Bjarni Guðmundsson fluttu hvert sitt erindi um Guðmund. Á eftir urðu líflegar umræður um málefnið. Þeim og málþinginu stjórnaði Bergur Þorgeirsson. 

 

Fram kom mynd af velmenntuðum jarðyrkjumanni er svall móður að láta gott af sér leiða meðal vaknandi þjóðar eftir nám erlendis. Að sumu leyti var umhverfið þó ekki tilbúið að taka við boðskap hans.

 

Guðmundur átti stuðning Jóns forseta. Í erindunum komu m.a. fram tengsl hugmynda Guðmundar við það sem var að gerast erlendis, bæði í búfræði og á öðrum sviðum, m.a. trúmálum og heimspeki.

 

Þótt ekki tækist Guðmundi að koma á búnaðarskóla í anda hugmynda hans og Jóns forseta var bent á það að búnaðarskólarnir, er til sögunnar komu, tóku að kenna ýmislegt af því sem Guðmundur fjallaði um í skrifum sínum og kenndi bændum með verklegum hætti.

 

Guðmundi Ólafssyni var í mun að  bændum tækist að auka afköst við túnasléttunina og hélt því plógi og plægingum fast fram en á því sviði virðist Guðmundur hafa náð meiri árangri en flestir á þessum árum.

 

Tveir ungir tónlistarmenn, Magnús Hallur Jónsson og Bjarni Frímann Bjarnason, settu fallegan svip á málþingið með söng og organslætti.

 

Féll epli þar ekki langt frá eik því langafi tenórsins Magnúsar, hann Höskuldur Einarsson í Vatnshorni, var forsöngvari í Fitjakirkju á sínum tíma, og amma hans, Kristjana Höskuldsdóttir frá Melaleiti, velþekktur organisti í kirkjum sunnan Heiðar.