29. ágúst 2011

Málþing að Fitjum í Skorradal laugardaginn 10. september

Laugardaginn 10. september nk. verður haldið málþing að Fitjum í Skorradal um Guðmund Ólafsson jarðræktarmann sem þar bjó lengi.

 

Guðmundur var fæddur að Setbergi við Hafnarfjörð árið 1825 en lést að Fitjum árið 1889.

 

Guðmundur var einn af best menntuðu búfræðingum sinnar tíðar; nam búfræði um fjögurra ára skeið í Danmörku.

 

 

Guðmundur Ólafsson varð áhrifamikill á því sviði, bæði sem ráðunautur og höfundur búfræðirita. Þá var hann um skeið alþingismaður Borgfirðinga.

 

Guðmundur var samverkamaður Jóns Sigurðssonar forseta, og naut hvatningar hans í starfi sínu.

 

Á málþinginu verða flutt þrjú erindi um Guðmund:

 

Karólína Hulda Guðmundsdóttir á Fitjum og afkomandi Guðmundar mun segja frá Guðmundi og fjalla um helstu æviatriði hans.

 

Ingi Sigurðsson frá Reykjum í Lundarreykjadal, prófessor í sagnfræði, mun skoða fjórar ritgerðir Guðmundar um búnaðarmál í sögulegu samhengi.

 

Þá mun Bjarni Guðmundsson prófessor og safnstjóri á Hvanneyri fjalla um nokkrar jarðræktarhugmyndir Guðmundar, efni þeirra og áhrif.

 

Málþinginu mun stjórna Bergur Þorgeirsson forstöðumaður Snorrastofu í Reykholti.

 

Málþingið verður haldið í Skemmunni á Fitjum. Það hefst kl. 14 og er gert ráð fyrir því ljúki um kl. 16. 

 

Á boðstólum verður miðdegishressing. Gjald fyrir þátttöku í málþinginu verður kr. 500,- Miðdegishressing er innifalin í þátttökugjaldi.

 

Það eru afkomendur Guðmundar Ólafssonar á Fitjum og Landbúnaðarsafn Íslands á Hvanneyri sem að málþinginu standa, með atbeina Snorrastofu í Reykholti.