10. ágúst 2011

Giftar hagldir?

Einn gestanna, sem komu í safnið nú í vikunni, var aldinn kunnáttumaður kominn úr því byggðarlagi er syðst verður á fastalandi Íslands. Eftir að hafa skoðað safnið rækilega og miðlað heimsíðungi fróðleik um gráa innflutta og notaða Fergusona sem fengu upplyftingu hérlendis, m.a. með rauðum farva á húddi og brettum til þess að ganga í augu kaupenda, spurði gesturinn: Ert´ekki með giftar hagldir í safninu?

 

Spurningin kom á heimsíðung flatan; þótt hann væri getinn, fæddur og alinn upp undir fegurstu fjarðafjöllum landsins, þar sem allt hey þurfti að binda allt til þess tíma er afi hans og alnafni sagði: Hingað og ekki lengra! Nú bind ég ekki framar mitt hey sem ég get ekið heim í hlöðu á kerru ...

 

Heimsíðungur viðurkenndi vanþekkingu sína svo gesturinn skýrði málið:

 

Giftar hagldir eru gjörðar úr horni með hitun og tálgun: hornhögld eða hnithögld einnig nefnd.

 

"Giftingin", sagði gesturinn, felst í því að endar hornsins læsast saman þegar hornið kólnar: hak á öðrum enda hornsins krækist við gat á hinum. Einfalt og (oftast/stundum) varanlegt... eins og gifting...

 

Og svo fylgir mynd af giftum högldum, sem heimsíðungur hafði oft handleikið á þurrkdögum á meðan enn var þakkað fyrir hvert strá er í hlöðu náðist, án þess að velta öðru nafni fyrir sér en hornhögldum.