8. ágúst 2011

Alfred bóndi frá Norður Dakóta

Á dögunum kom í safnið Alfred Byron bóndi í Norður Dakóta. Hann var hér á ferð með fylgdarliði sínu m.a. að kanna æskuslóðir afa síns sem eru á Ströndum norður. Alfred er orðinn 85 ára en rekur enn sinn farm, eins og þeir segja þar westra, býr við korn og bíf.

 

Alfred er fjallhress og mikill áhugamaður um forntraktora; tekur m.a. þátt í fornvélasýningum vítt um sveitir. Myndin sem klausu þessari fylgir var tekin á Íslendingadeginum í Mountain 2010. Þar ekur Alfred sínum Allis Chalmers og sáldrar nammi til viðstaddra svo sem venja er í paröðum þeirra.

 

Heimsíðungur hafði náð mynd af karli við sama tækifæri en ári fyrr þar í Mountain, án þess að hafa hugmynd um hver hann var. Það urðu því fagnaðarfundir er Alfred kom að Hvanneyri og tilviljunin kom í ljós. 

 

Bóndi komst í essið sitt er hann sá safnið, ekki síst þá hann hitti þar fyrir Allis Chalmers og John Deere, sem hann átti margar sögur um. Hins vegar drap hann málum á dreif þegar heimsíðungur benti honum á Farmal og fleiri Nalla sem flæddu um íslenskar sveitir ...

 

... sjálfur átti Alfred eina 7-8 Chalmersa af ýmsum gerðum, upp-pússaða; taldi þá tegund öðrum æðri nema ef væri John Deere, þessa með svinghjólið á hliðinni.

 

Þótt þriðji ættliður væri talaði hann íslensku með ágætum að hætti hinna þjóðhollu Vestur-Íslendinga.

 

Við gleymdum okkur yfir smátriðum forntraktorafræðanna og kom þá enn í ljós að hjörtunum svipar saman í Dakóta og dölum Borgarfjarðar.

 

Alfred rak þó heimsíðung mjög fljótt á stampinn þegar kom að tæknilegum leyndarmálum hinna appelsínurauðu og gulgrænu traktora, en hann nam fleira.

 

Kíkið á flotta Allisinn hans Alfreds þar sem hann fer undir þjóðfánum og svo mikil er sporvíddin að hann gæti skrefað yfir minnst tvö rófubeð.

 

Svo sjáum við ekki betur en að Ford-dráttarvél (8N ?) læðist á eftir þar á sólsteiktu strítinu í Norður Dakóta...