7. ágúst 2011

Guðrún Bjarna - Handverksmaður ársins!

Guðrún Bjarnadóttir, staðgengill heimsíðungs við umsjá og móttöku gesta Landbúnaðarsafnsins var í gær valin Handverksmaður ársins á Handverkshátíðinni að Hrafnagili, sjá www.handverkshatid.is

 

Guðrún hefur náð afskaplega athyglisverðum árangri í jurtalitun, sem raunar er þjóðleg iðja og ein af þeim listum sem forfeður vorir kunnu. Guðrún hefur endurnýtt þá þekkingu en jafnfram aukið miklu við hana.

 

Satt að segja eru litbrigðin ótrúleg sem Guðrún hefur kunnáttusamlega náð fram á bandi sínu svo að söluborð hennar eru sem listaverk á að líta - og eru það, sjá meðf. mynd.

 

Guðrún kynnti list sína og handverk á Farmal-fagnaði Hvanneyri þann 16. júlí sl. og vakti kynning hennar þá líka gríðarlega athygli.

 

Heimsíðungur getur um það vottað að á Handverkshátíðinni hefur kynningarbás Guðrúnar ekki vakið minni athygli: Í gær, laugardag, var þar linnulítil sókn gesta sem vildu kynna sér verk Guðrúnar og eiga við hana viðskipti.

 

Landbúnaðarsafn Íslands óskar Guðrúnu til hamingju með tilnefninguna og þann árangur sem hún hefur náð í varðveislu og þróun úrvinnlu ullar með jurtalitun - sem er merkur þáttur í sögu íslenskrar verkmenningar.