4. ágúst 2011

Fremsti Farmallinn - í Barðastrandarsýslum

 Ætli það hafi ekki verið kringum 1952 sem tekið var að búa dráttarvélar sérstökum skráningarnúmerum: rauðum stöfum á hvítum fleti. Sýslubókstafur, lítið d og raðnúmerið skyldu standa þar.

 

Misjafnt var hver hart menn gengu fram í að setja merkin upp. Þeir samviskusömustu settu þau með traustum hætti á dráttarvélar sínar, aðrir stungu þeim ofan í verkfærakassann, en einhverjir geymdu þau bara í umbúðunum inni í bæ.

Á Tindum í Geiradal var reglunum fylgt og þar fékk Farmallinn sitt númer svo sem reglur lýðveldisins kváðu á um.

 

Það stóð hins vegar þannig á skrefi að sýslumaður Barðstrendinga hóf þinghald sitt "númeravorið" þar inn frá - í Geiradalshreppi. Hvað var þá eðlilegra en að fyrsta dráttarvélin, sem upp var gefin, fengi lægsta númerið, - B-d 1.

 

Þeim, er hana átti, sem mun hafa verið hreppstjórinn, þótti það hins vegar óþarfa fordild að sinni hálfu svo hann færðist undan vegsemdinni.

 

Þá var bara að skella númerinu á næstu dráttarvél, sem þá var Farmall Gríms á Tindum. Og af honum með númerinu er myndin.

 

Farmall þessi er enn til í góðu standi og með sínu ágæta númeri, að sjálfsögðu. Þess vegna er Farmall fremstur þar í sýslu - númer eitt.

 

Þessa frásögn bar heimsíðungi Arnór, sonur Gríms, og hann gaf einnig myndina. Hins vegar er frásögnin skrifuð eftir minni.

 

Leiðréttingar munu berast eftir þörfum.

 

Frásögnin er hluti af þeirri dráttarvéla-sagnfræði, sem heimsíðungi er í mun að eigendur forndráttarvéla iðki, ekki síður er góða spörslun og lökkun járnhestanna ....