22. júlí 2011

Fræðsluskilti um borfirsku flæðiengjarnar

Á sl. safnadegi, 10. júlí sl., voru á Hvanneyri sett upp fræðsluskilti um borgfirsku flæðiengjarnar og nýtingu þeirra á síðustu öld. Byggjast þau á rannsóknaverkefni sem unnið hefur verið á vegum Landbúnaðarsafns og Laxveiði- og sögusafnsins í Ferjukoti.

 

 

Ragnhildur Helga Jónsdóttir umhverfisfræðingur og bóndi í Ausu hefur unnið meginverkefnið og hún með samvinnu við Þórunni Eddu Bjarnadóttur hönnuð útbjó skiltin sem eru þrjú.

 

Fræðsluskiltin eru við anddyri Halldórsfjóss, þar sem vel sér til engjalandanna við innanverðan Borgarfjörð. Hafa þau þegar vakið athygli staðargesta og stoppa margir þar og kynna sér fróðleikinn sem á þeim má lesa.

 

Skýrslu um rannsóknaverkefnið er verið að ganga frá þessar vikurnar og verður hún kynnt með haustinu. Fræðsluskiltin eru því bráðabirgðakynning efnisins.

 

Verkefnið var styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins (www.f.is ) og Menningarsjóði Borgarbyggðar.