4. júlí 2011

Safnadagurinn á Hvanneyri á sunnudaginn kemur, 10. júlí

Íslenski safnadagurinn er sunnudaginn 10. júlí nk. Landbúnaðarsafn Íslands á Hvanneyri tekur að venju þátt í Safnadeginum.

 

 

Gerður verður nokkur dagamunur í safninu eins og venja hefur verið á Safnadegi undanfarin ár.  

 

Kl. 14 verður farin stutt fræðsluganga frá safninu um minjahverfið á Hvanneyri undir heitinu Borgfirsku flæðiengjarnar og nýting þeirra. Ragnhildur Helga Jónsdóttir umhverfisfræðingur og bóndi í Ausu leiðir gönguna og segir m.a. frá rannsóknaverkefni um viðfangsefnið sem hún hefur unnið með aðstoð borgfirskra heimildarmanna. Verkefnið vann hún með Landbúnaðarsafni Íslands og Laxveiði- og sögusafninu í Ferjukoti.

 

Kl. 15 verður í Landbúnaðarsafninu opnuð lítil sýning sem varðar þátt Jóns Sigurðssonar forseta í endurreisn landbúnaðar á 19. öld. Sýningin er samvinnuverkefni safnsins og Afmælisnefndar Jóns Sigurðssonar. Athygli er beint að hvatningarriti Jóns, Lítilli varníngsbók, og hugmyndum hans um skóla fyrir bændur og sjómenn. Bjarni Guðmundsson mun kynna sýningarefnið.

 

Landbúnaðarsafnið verður opið og aðgangur ókeypis. Vöfflukaffi safnsins verður í Skemmunni, elsta húsinu á Hvanneyri.

 

Safn- og staðarleiðsögn verður veitt eftir þörfum. Ullarselið með einstaktog alíslenskt handverk verður á sínum stað. 

 

Opið verður í Seli og Safni kl. 12-18.