17. maí 2011

Reyrt í hlust hægra ...

Heimsíðungur getur sér þess til að líf kvikni einhvers staðar í fjárhúsum landsins á hartnær hverri mínútu þessi dægrin. Þegar lífið er komið nokkuð á legg kemur starfsmaður fæðingardeildarinnar með bókhaldsgögn í annarri hendi en markatöng í hinni og merkjatöng í rassvasanum. Æfðum tökum er markað og brugðið plastmerki í eyra lambsins. Þannig búið, í samræmi við lög landsins, gæti lambið labbað inn á afrétti EB og notið þar grængresis og styrkja, og þekkst allsstaðar – jafnvel með öruggari hætti en íbúar þeirrar þjóðasamsteypu.

 

Fjármörk eru jafngömul þjóðinni. Hér verður ekki fjallað um þau heldur aðeins vakin athygli á þróun lambamerkinga.

 

Heimsíðungur er vaxinn upp við það að tvílembingar voru sérmerktir litarspotta til þess að auðveldara væri að greina þá er kom að aftekt/rúningi og annarri meðferð þeirra.

 

Búnir voru út traustir ullarbandsspottar (vindingar) í skýrum litum og þeir smurðir vaselíni eða júgurfeiti áður en þeim var brugðið í eyru lambanna. Hnútur settur á báða enda.

 

Velja mátti um fjóra staði á hvoru eyra, sjá meðfylgjandi mynd. Með nokkrum litum var því unnt að velja marga kosti sem kom sér vel með vaxandi frjósemi ánna. Einkenni lambsins var því litur „vindingsins“ í eyra lambsins og staðsetning hans á hvoru eyra: rautt framan hægra, rautt í hlust hægra, rautt í brodd eða rautt í stúf (ef um yfirmark var að ræða...) osfrv..

 

Kerfið klikkaði sjaldnast nema þegar blessuð lömbin fundu upp á því að naga vindingana úr eyrum hvers annars.

 

Síðan komu heimagerð álmerki til sögunnar. Í mjóan álrenninginn var slegið númer og merkið fest í eyra lambsins. Merkin tíðast heimagerð, en fjöldaframleidd ál-lambamerki mátti líka finna.

 

Svokölluð hænsnamerki nutu nokkurra vinsælda: lítið málmspjald með bogspennunál sem stungið var í gegnum lambseyrað. Fyrir kom að merkin söfnuðu á sig ullartjásum svo til baga varð. Stöku hraustmenni í dreifbýli gekk með hænsnamerki í eyra í eyrnalokks stað.

 

Bændur tóku að þreifa sig áfram með plast-lambamerki. Af þeim hafa verið boðnar og reyndar ýmsar gerðir. Plastmerkin eru nú alráð og geyma skyldubundnar upplýsingar um hvert lamb - lit og númer.

 

Og svo hefur verið rætt um örmerki og sjálfvirkan aflestur. Sjálfsagt breiðast þau út þótt vonandi verði hin aldagrónu mörk áfram nýtt:

 

Það er nefnilega eitthvað grunsamlegt og eiginlega fráhrindandi við sauðkind sem hefur alheil eyru – finnst ykkur það ekki?

 

Af þessu stutta og einfaldaða yfirliti má sjá að búnaðarsagan á sér marga kafla.

 

Kannski tekur sig einhver til og skráir lambamerkingasöguna nákvæmlega. Landbúnaðarsafn hvetur til þess að minjum um hana verði haldið til haga. Hún á ekki síst heima á Sauðfjársetri Strandamanna þar sem þegar er til að henni góður vísir.