29. apríl 2011

Minnt á ár Nallans!

Nú líður brátt að því að hinar vinnandi stéttir safnist undir rauða fána og syngi Nallann - þetta þekkilega göngulag sem blæs hverjum ærlegum manni byltingaranda í brjóst, og elur með honum löngun til þess að grípa geirinn í hönd og hefjast handa ...

 

En fleiri Nallar hafa reynst byltingarmönnum þarfir og hvetjandi.

 

Þannig var það með International 10-20 dráttarvélina - Nallann - sem fyrst kom til Íslands árið 1929.

 

Því var lýst yfir á Nýársdag eða nálægt því að árið 2011 væri ár Nallans. Af því tilefni birtum við þessa auglýsingu, fengna úr Morgunblaðinu fyrir nær sléttum 82 árum.

 

Þetta var ein fyrsta, ef ekki fyrsta auglýsing þessarar dráttarvélar, sem þá var orðin ein vinsælasta dráttarvél heimsbyggðarinnar.

 

Hún var smíðuð í verksmiðjum International Harvester Co. í USA, og um þessar mundir höfðu meira en 100 þús. vélar runnið af færiböndunum þar við vötnin stóru.

 

Fram til þessa höfðu Bendix-bræður í Khöfn auglýst McCormick-verkfæri hérlendis. Merkið var orðið allþekkt, m.a. á sláttuvélum.

 

Þarna er það Mjólkurfélag Reykjavíkur, þá rúmlega 12 ára gamalt, sem vélarnar auglýsir. Okkur grunar að félagið kunni að hafa selt fyrstu dráttarvél þessarar gerðar er til landsins kom.

 

Örskömmu síðar hlaut SÍS umboðið fyrir International Harvester Co. og tók að selja IHC-vélarnar grimmt. Nær fimm tugir þessara dráttarvéla komu til Íslands.

 

Flestar þessara véla urðu félagseign. Með þær var farið bæ frá bæ  og unnin tún: Þurrlendis þúfnakörgum var breytt í slétt og sláttuvélartæk tún og rýrir móar urðu að töðuvöllum.

 

Unnið var með plóga, diskaherfi eða hnífaherfi og hundruðir hektara af nýrækt urðu til.

 

Nallarnir seldust víða um land og ekki síst um V- og N-land. Allmargar þessara véla eru enn til, við giskum á meira en tugur, þar af sumar upp-pússaðar og í fínu standi.

 

Veitið athygli texta auglýsingarinnar, þar sem m.a. segir:

 

Vjer höfum þessar vjelar fyrirliggjandi hjer á staðnum

og útvegum í viðbót með stuttum fyrirvara.

 

Mc Cormick dráttarvjelin er tvímælalaust sú fullkomnasta

dráttarvjel sem til er. Þó hún sje nokkru dýrari

en aðrar dráttarvjelar, þá hefir reynslan orðið með

hana eins og bestu bifreiðarnar, að þó þær sjeu dýrari í

bili, þá verða þær altaf þær ódýrustu í reyndinni.

 

Um þessar mundir var Fordson hin tegundin sem hérlendir bændur höfðu helst kynnst, að ógleymdum Lanz-þúfnabananum, er var vélin sem kynnti Íslendingum vélaraflið til jarðvinnslu og jarðræktar.  

 

Þegar Nallinn var fyrst auglýstur var það m.a. merki um að tími þúfnabanans væri liðinn. Áhrifa Nallans átti eftir að gæta víða um land og lengi ...

 

Tökum því vel undir í Nallanum á sunnudaginn kemur og hyllum hinn gamla jálk er braut í blað íslenskrar ræktunarsögu.

 

Við segjum meira frá IHC-vélunum er lengra líður á Nalla-árið.