10. apríl 2011

Herfi að hverfa

Stundum er erfitt að sjá muninn á megnun umhverfis og menningarminjum. Fyrir kemur að þar gildir sama og um smekkinn: hver hefur sinn en enginn getur sagt hvað er réttur smekkur og hvað rangur.

 

Meðfylgjandi mynd er tekin skammt frá bæ barnmörgu skáldkonunnar sem kvað um ljóð fuglsins er hljómuðu ofar sólu og heilluðu helgar englasveitir. (Bæjarnafnið og heiti skáldkonunnar er getraun dagsins).

 

Myndin sýnir diskaherfi frá sjötta eða sjöunda áratugnum er af trúmennsku fylgdi rauðri jarðýtu um sveitir þar og sneiddi þúfur í smátt svo eftir varð grófunnið flagið. Svörður og rætur góðgrasa og blómjurta sviptust í sundur og blöstu brún við sólu.

 

En í lofti lá þessi sérstæði blandilmur moldar og díseloliu sem enn vekur heimsíðungi sterkar en flest annað minninguna um það þegar alls staðar var verið að stækka tún í von um betri afkomu. 

 

Herfið vann sitt verk, hæfilega skekkt svo diskar þess næðu að vinna sem smáplógar á fjórum öxlum. Afl ýtunnar leyfði að bensíntunnu grjótfylltri væri komið fyrir á miðju herfi svo dýpra næði að skera og stöðugar:

 

Glatt um herfi sáðmold sýður / sól um akur geislum fer ... kvað Árni G. Eylands og sólin lék líka um bæ og tún skáldkonunnar....

 

Heimsíðungur, í sumarferð með konu sinni, er skáldkonuna á að frænku, gekk fram á herfið og tók meðfylgjandi mynd.

 

Myndin sýnir áhrif aflanna er veröld okkar móta: Herfi, sem eitt sitt rann stálgljándi og glansmálað út úr vesturheimskri stórverksmiðju búvéla og raungerði vonir ræktunarbænda, studdar vilja og valdi íslenska ríkisins, hvílir nú afskiptalaust á lækjarbakka.

 

Veður, vindar og efnafræði ryðsins eyðir herfinu hægt og bítandi, svo hverfa mun til frumefna sinna. En svörðurinn, sem það eitt sinn skar í smátt, á sitt grómegn óraskað.

 

Við sólu hvers sumars blómgast svarðargróðurinn, safnar sér efnum í vaxandi jarðveg góðgrösum og blómskrúði til vaxtar, svo innan fárra ára munu breiða hjúp sinn yfir mannanna verk og minningar þeim tengdar.

 

Og við, túristar á sumarvegi, sjáum að hugvit og fimmtíu sextíu hestöfl, studd jarðræktarlögum og mörgum krónum þeirra, koma þrátt fyrir allt fyrir lítið.

 

Móðir náttúra er umburðarlynd gagnvart tímabundnum þörfum okkar mannanna en heldur iðin á við að bæta og græða. En í og síðar undir sverðinum vakir minningin um erfiði og vonir einhverra.

 

Vegna þess erfiðis og þeirra vona erum við meðal annars stödd þar sem við erum í dag: daginn eftir að þjóðin hafnaði síðustu lagagerðinn um æs-seif; á fimmta sunnudegi í föstu.

 

Þess vegna höldum við söginni til haga - líka um þetta umkomulausa og hverfandi herfi.