3. apríl 2011

Skagfirskur 10-20 Nalli í Konnasafni við Akureyri

Fyrst verður heimsíðungur að biðjast afsökunar á algerlega staðlausum stöfum sem færðir voru á síðuna þann 1. apríl. Þeir, eins og annað á henni, voru settir þar til þess að minnast gamals verklags, en hafa að öðru leyti ekkert með raunveruleikann að gera ...

 

Heimsíðung rak hins vegar norður til Akureyrar um daginn til þess að segja stórum hópi fornvélaáhugamanna þar sögur um gamlar dráttarvélar.

 

í norðurferðinni heimsóttum við ferðafélagarnir, Sigurður Skarphéðinsson og heimsíðungur, Konnasafn, sem er þar nærri Krossanesi. Konnasafn er vinnuvélasafn. Um það segir á heimasíðu safnsins www.vinnuvelasafn.is m.a.:

 

Konnasafn er vinnuvélasafn staðsett á Akureyri og stofnað af Konráði Vilhjálmssyni og afkomendum hans. Það var stofnað óformlega árið 1984 þegar Konráð keypti fyrsta safngripinn sem var Borgeit (Jarðbor) í félagi við Pálma Friðriksson. Markmið safnsins er að varðveita sögu vinnuvéla á Íslandi í máli og myndum.

 

Í ár eru um 70 vélar á safninu og bætast sífellt fleiri við. Það er áætlað að byggja yfir safnið á Skútum í Hörgárbyggð uþb. 2.400 m2 húsnæði og safna þar saman þeim vinnuvélum og tengdum tækjabúnaði sem annars færu forgörðum og skapað hafa sögu framkvæmda á Íslandi.

 

Konnasafn er ekkert smámunasafn. Þar eru safngripirnir flestir vænir að stærð, sumir nokkrir tugir tonna að þyngd. Okkur sunnanmönnum var afar vel tekið þar í safninu. Þór Konráðsson leiddi okkur um traðir millum raða vinnuvéla er safnað hefur verið saman víða að af landinu.

 

Áðurnefnd heimasíða gefur góða hugmynd um safnið og gripi þess. Kíkið því endilega á hana.

Nefna má það sem fyrir augu bar og helst vakti athygli undirritaðs:

 

Nýkomin var sú merka Raisa – jarðýta vestan af Mýrum sem rekin var saman austur í Rússíá en greip í mörg verk þar vestra, m.a. að troða hey í flatgryfju ef skrifarinn man rétt. Allar mögulegar gerðir af Caterpillar standa þar, auk Nalla að ógleymdum Cletrac og Allis Chalmers sem afar merkan þátt eiga í vinnuvéla- og mannvirkjasögu þjóðarinnar.

 

Inni á verkstæði var verið að endurgera eldfornt tréhús sagt vera af skagfirskri D-4 Caterpillar jarðýtu.

 

Skurðgröfur, allt frá fyrstu tíð hérlendis, bíða þar framtíðarinnar, hjólaskóflur og beltamokstursvélar. Líka skurðplógar og gröfutraktorar.

 

Þótt tíminn og vatnið í bland við súrefnið hafi leikið málma marga gripanna grátt – en þó fremur rautt – er upplifun að ganga þarna um vélatraðirnar og sjá dæmi um þróun vinnuvélanna, bæði í stærð en einnig gerð.

 

Drauma eiga þeir Konnasafnsmenn um að koma gripunum undir þak á hentugum stað. Vonandi verður það fyrr en síðar því þarna er verið að vinna gott verk. Stækkandi hópur áhugamanna um fornvélar og –tækni getur hlakkað til þess að njóta þar sögunnar og rifja upp horfna tíð.

 

Hér skal sérstaklega nefndur og sýndur með mynd S.Sk. IHC 10-20 traktor úr eigu föður safnstofnandans, Skagfirðingsins Konráðs Vilhjálmssonar. Afkomendur hans eru ráðnir í því að lagfæra þann merka traktor sem á sínum tíma braut jörð til túna milli vatna og víðar þar nyrðra.

 

Þá bætist traktorinn í stækkandi hóp uppgerðra Nalla af þessari gerð sem komu til landsins á árunum 1929-1938. Þór Konráðsson benti heimsíðungi á að ljósmyndir af traktornum að störfum væru í bókinni Horfnir starfshættir eftir Guðmund Þorsteinsson frá Lundi, útg. 1990, bls. 181.

 

Á meðfylgjandi mynd sjáum við Nallann eins og hann lítur út núna, lúinn að sönnu, en án efa verður hann tekinn að skína í fegurð sinni innan skamms tíma.