1. apríl 2011

Er páll - stunguspaði - Höskuldar Hvítanesgoða fundinn?

Skömmu eftir miðnætti sl. nótt var heimsíðungur vakinn með símhringingu. Í símanum var fornleifafræðingur staddur austur á Bakkafjöru. Hann kvaðst ekki hafa náð í Þórð í Skógum en málið snerist um að greina málmhlut sem komið hefði upp við sanddælingu, sbr. frétt Mbl. í dag.

 

Fornleifafræðingurinn kvaðst telja að þarna væri á ferð páll, hið eldforna jarðræktartæki. Fræðingurinn lýsti gripnum nánar og að því marki sem þekking heimsíðungs nær verður ekki betur séð en þarna fari forn páll. En hvers og hvaða?

 

Heimsíðungi datt strax í hug að þarna færi páll Höskuldar Hvítanesgoða. Höskuldur var einn helsti kornyrkjumaður þar eystra á sinni tíð, eða allt þangað til Njálssynir og Kári hjuggu hann í einhverju æðiskasti. Höskuldur vann þá að kornsáningu í gerði sínu.

 

Líklega hefur pállinn legið honum eftir á gerðisveggnum. Á honum höfðu óknyttapiltarnir, Bergþórshvælingar,  örugglega engan áhuga. Eyðingaröfl landsins hafa síðan borið pálinn ýmislega og feygt af honum skaftið allt þar til nú að hann kemur fram í dælingu til bjargar Vestmanneyingum (og okkur).

 

Það varð að ráði að heimsíðungur skryppi austur í dag til þess að rannsaka pálinn, en Þórður í Skógum verður að sjálfsögðu líka kvaddur á staðinn, ef hann hefur tíma aflögu frá fræðastörfum sínum.

 

Heimsíðungur ætlar hins vegar fyrst að koma við á hreppsskrifstofunni í Borgarnesi til þess að kaupa a.m.k. eitt hlutabréf í OR, sbr. frétt Skessuhorns í dag.

 

Bæði hefur heimsíðungur hug á að hagnast umtalsvert á viðskiptunum en ekki síður að hressa sig fyrir ferðina á því heitavatns-kakó-rommi úr Deildartunguhver sem hreppsnefndin býður upp á fram til hádegis í dag.  

 

Líklega verður því ekki úr að heimsíðungur komist af stað austur fyrr en með morgninum, laugardaginn 2. apríl.