16. mars 2011

Grjótlendisbændur á Ströndum og á Stóru Kanaríu

Heimsíðungur naut sólar á Stóru Kanaríu sl. tvær vikur. Þar gafst honum tækifæri til þess að kíkja ögn á gamlar búskaparminjar sem nóg er af á hinni eldum brunnu eyju. Þarna var nfl. stundaður jarðræktarbúskapur í stórum mæli áður en sólþyrstir Evrópubúar lögðu land eyjunnar og vinnuafl undir sig.

 

Meðfylgjandi mynd er af fornum tómataakri þar á Suður Stóru Kanaríu.

 

Akurinn er nú í tröð fallinn en sjá má leifar garðbrotanna er deildu teigana í sundur og geymdu um leið stórgrýtið sem tínt hafði verið nostursamlega úr akrinum - var þó nóg smátt eftir.

 

Víða eru þarna með þjóðvegum hallandi akrar, líkt og beð, hlið við hlið, aðskildir með grjótgörðum, stundum stallaðir; beðin þetta 10-15 m breið: ræktunarvangar tómata, banana og fleiri góðávaxta. Minna ræktunarkerfin mjög á beðaslétturnar sem enn má sjá minjar um víða hérlendis, t.d. norður um Strandir.

 

Bóndi allra alda og landa hefur alltaf reynt að laga ræktun sína að ríkjandi landkostum, út frá sömu hugsun og sömu reynslu: að nytjagróðurinn fái frið til vaxtar, njóti sólar og vætu og tiltæks áburðar.

 

Þess vegna er það ekki að undra þótt sjá megi samsvörun í verkháttum bændanna: Sömu viðfangsefni kalla fram svipaða lausn.

 

En þar sem kanaríski bóndinn stríddi við vatnsskort (og þó stundum skaða af næturdögg) bjó sá íslenski við varmaskort og vinda:

 

Enda sagði skáldið eitthvað á þessa leið: ... að hið blíða blandað stríðu, allt er gott sem gjörði hann... Það væri örugglega lítið gaman að vera bóndi ef sól skini alla dag með regni útmældu eftir þörfum og vindi þegar vel stæði á ... og verði ákvörðuðu bara af sexmannanefnd.

 

Mórall sögunnar er sá að margt sem við lesum úr verkháttum okkar og teljum alíslenskt á sér, þegar að er gáð, missterka samsvörun í verkháttum nágrannaþjóða.

 

Því verður t.d. íslenska búnaðarsagan ekki aðeins skoðuð einangruð - hún er hluti af heild heimsins.