28. febrúar 2011

Fjósverkum miðar ...

Frægur varð sá maður sem fyrir nokkrum árum kvað verk í tilteknu ráðuneyti þokast áfram með hraða snigilsins. Nú er það gömul reynsla að snigillinn kemst þangað sem hann ætlar sér því honum er jafnan markið ljóst.

 

Því er á þessu haft orð að vinna við endurbætur í Halldórssfjósi, sem verða á framtíðarathvarf Landbúnaðarsafns þokast áfram.

 

Fyrir liggja tillögur um það hvernig rými hússins skuli nýtt.

 

Ásetningurinn er að vinna það, sem gert er, þannig að ekki þurfi að endurtaka það innan fyrirsjáanlegs tíma.

 

Snigillinn hefur ekki efni á því að stíga mörg aukaskref - og Landbúnaðarsafn ekki heldur.

 

Verið er að búa móttöku og snyrtingar undir grunnmálningu. Búið er að háþrýstiþvo fjósið að innan. Það þornar nú og bíður málningar. Á fjósloftinu er verið að búa út aðstöðu þar sem verða á skrifstofa safnsins í fyrstu með rými til gagnageymslu.

 

Þá hóf á dögunum störf hópur sem vinnur með næsta umhverfi Halldórsfjóss og tengsl þess við skipulag Gamla skólastaðarins. Inn í það á Landbúnaðarsafn að falla - enda búnaðarsöguminjar ýmsar þar allt í kringum gamla skólahlaðið.

 

Engar tímasetningar hafa verið gefnar út um það nær safnið flytur í hið söguríka Halldórsfjós. Það mun þó gerast í allmörgum áföngum.

 

Hins vegar má nefna það að fyrsti almenni gestahópurinn hefur þegar heimsótt Halldórsfjós og kynnt sér sögu hússins og framkvæmdir þar. Það voru starfsmenn í ráðhúsi Borgarbyggðar er komu sl. mánudag, 21. febrúar 2011.

 

Við tökum gjarnan á móti slíkum gestum. Framlög frá þeim til framkvæmda eru þakksamlega þegin!