18. febrúar 2011

Til hamingju Skesshyrningar!

Landbúnaðarsafn færir Skessuhorni hamingjuóskir í tilefni 13 ára afmælisins í dag. Að verða þrettán ára er mikilvægur áfangi því þá hefst fermingarárið - ár atburðarins er komist verður í fullorðinna manna tölu.

 

 

Skessuhorn hefur um árabil verið mjög ljúft að flytja fréttir af starfi Landbúnaðarsafns. Safnið á blaðinu því mjög að þakka ýmsa athygli er safnið hefur hlotið á undanförnum árum, athygli sem gagnast hefur safninu með margvíslegum hætti.

 

Það er ekki sjálfgefið að haldið sé úti héraðsblaði sem er vettvangur góðra tíðinda og vondra, nöldurs og lofs, raupsagna eða raunakvæða ...

 

... en þannig hefur Skessuhorn einmitt klárað sig fínt; verið að sínum hluta dálítið lím í samfélaginu, hjálpað því til þess að finna til samkenndar sem aldrei var meiri þörf á en nú ...

 

... með kvenfélagskonum vestrá Nesi, knattspyrnumönnum á Skaga (sem ég hélt á tímabili að væru í útrýmingarhættu), bátasmiðum á Reykjanesi, Briddsmönnum í Logalandi (sem eru ekki í útrýmingarhættu), útilegufé á uppheiðum, stúlkum sem striplast í sýningarskyni núna í skammdeginu og aðkomumönnum sem stunda undarlega hegðan með veiðistöng í vatnsföllum héraðanna á hásumri, svo aðeins örfá dæmi séu nefnd.

 

Um ekkert af þessu er okkur sama - og það getum við m.a. þakkað héraðsfréttablaðinu Skessuhorni.

 

Landbúnaðarsafn óskar Skessuhorni langra lífdaga og þakkar samfylgdina síðustu 13 árin....