31. janúar 2011

Flæðiengjafundur á Hvanneyri

Næstkomandi miðvikudagskvöld, 2. febrúar kl. 20, verður haldinn fræðslu- og fróðleiksöflunarfundur í Bútæknihúsinu á Hvanneyri. Viðfangsefni fundarins er Nýting flæðiengja í Borgarfirði - Verkhættir og vinnubrögð á 20. öld.

 

 

Á fundinum mun Ragnhildur Helga Jónsdóttir verkefnisstjóri greina frá niðurstöðum verkefnis sem hún hefur stýrt og unnið að undanfarið. Hefur hún rætt við fjölda heimildarmanna og kannað heimildir, m.a. í kjölfar hliðstæðs fundar sem haldinn var á Hvanneyri með heimildarmönnum í apríl sl.

 

Tilgangur fundarins nú er að kynna helstu niðurstöður verkefnisins og að afla frekari upplýsinga frá þeim sem þekkja til nýtingar flæðiengjanna. Síðast en ekki síst gerum við ráð fyrir að fundurinn verði líka skemmtilegur. Heitt verður á könnunni, enda Kyndilmessa.

 

Fundurinn er opinn öllu áhugafólki um sögu og nýtingu borgfirsku flæðiengjanna.

 

Verkefnið er samvinnuverkefni Landbúnaðarsafns Íslands, Laxveiði- og sögusafnsins í Ferjukoti og Ragnhildar Helgu Jónsdóttur, land- og umhverfisfræðings. Í verkefnisstjórn með henni eru þeir Þorkell Fjeldsted og Bjarni Guðmundsson.